Enski boltinn

Hamrarnir vilja meira fyrir Rice en Skytturnar eru að bjóða

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sambandsdeildarmeistarinn Rice er eftirsóttur.
Sambandsdeildarmeistarinn Rice er eftirsóttur. Richard Heathcote/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið West Ham United hefur neitað fyrsta tilboði Arsenal í enska miðjumanninn Declan Rice. Englandsmeistarar Manchester City fylgjast náið með gangi mála.

Arsenal hefur verið með hinn 24 ára gamla Rice á óskalista sínum í dágóða stund nú. Í dag var staðfest að Skytturnar hefðu boðið í leikmanninn en Hamrarnir hafi neitað tilboðinu þá og þegar. Frá þessu greinir David Ornstein hjá The Athletic.

Eftir að West Ham vann Sambandsdeild Evrópu á dögunum staðfesti David Sullivan, eigandi Hamranna, að Rice hefði spilað sinn síðasta leik fyrir félagið og að hann myndi yfirgefa það í sumar.

Þrátt fyrir að eiga aðeins ár eftir af samningi sínum við West Ham er talið að félagið vilji meira en 100 milljónir punda [17,5 milljarða íslenskra króna] fyrir miðjumanninn öfluga.

Í febrúar sagði David Moyes að það þyrfti að Rice yrði að öllum líkindum dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en skömmu áður hafði Chelsea keypt Enzo Fernandes á 107 milljónir punda.

Rice hóf að spila með West Ham árið 2017 og hefur alls spilað 245 leiki fyrir félagið. Hann er uppalinn hjá Chelsea en gæti í haust spilað fyrir þriðja Lundúnafélagið. Það er ef Manchester City stígur ekki inn en Englandsmeistararnir eru taldir vera að vega og meta hvort þeir vilji bjóða í leikmanninn eður ei.

Gæti farið svo að Kalvin Phillips færi í hina áttina en hann gekk til liðs við Man City síðasta sumar en hefur ekki átt sjö dagana sæla.


Tengdar fréttir

Fé­laga­skipta­gluggi Eng­lands opnaður: Stór nöfn gætu verið á far­alds­fæti

Félagaskiptagluggi ensku úrvalsdeilda karla og kvenna í knattspyrnu hefur verið opnaður og má búast við flugeldum. Fjöldi stórra nafna mun skipta um lið í sumar fyrir upphæðir með svo mörgum núllum að við almúginn skiljum þær varla. Í tilefni þess tók Sky Sports saman hvaða 50 leikmenn er vert að fylgjast sérstaklega með í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×