Enski boltinn

Banna kaup eins og þau þegar Glazer keypti Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Avram Glazer og systkini eiga Manchester United.
Avram Glazer og systkini eiga Manchester United. Andy Lewis/Getty Images

Eigendur félaga í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafa bannað kaup þar sem kaupandi hleður skuldum á félagið sem verið er að kaupa. Hefði slíkt bann verið í gildi árið 2005 hefði Glazer-fjölskyldan aldrei eignast Manchester United.

Árlegur fundur eigenda liða í ensku úrvalsdeildinni fór fram í gær. Stærstu tíðindin eru sú að allir 20 eigendurnir samþykktu að breyta „Eigenda og forstjóra“ prófinu sem einstaklingur þarf að gangast undir vilji hann kaupa félag í deildinni.

Áður fyrr gat mögulegur kaupandi verslað félag á 100 prósent lánum sem máttu vera með veð í eignum þess félags sem væri keypt. Þannig yrði félagið að borga upp lánið en ekki eigandinn sjálfur, lánið í heild sinni féll því á félagið.

Er það svona sem Glazer-fjölskyldan keypti Manchester United á sínum tíma en hún steyptu félaginu í skuldir sem hanga enn yfir félaginu eins og dökkt ský.

Blaðamenn eins og Simon Stone hjá BBC, breska ríkisútvarpinu, og Henry Winter hjá Times greina nú frá því að þetta sé ekki leyfilegt lengur.

Þá var ákveðið að félög deildarinnar muni standa saman í baráttunni gegn óæskilegri hegðun svo sem níðsöngvum, hatursorðræðu á netinu og fleira því um líkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×