Fótbolti

Alfreð áfram hjá Lyngby: „Ég mun aldrei gleyma síðasta tímabili“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alfreð Finnbogason verður í það minnsta eitt ár í viðbót hjá Lyngby.
Alfreð Finnbogason verður í það minnsta eitt ár í viðbót hjá Lyngby. Vísir/Getty

Landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason hefur skrifað undir eins árs framlengingu á samningi sínum við danska úrvalsdeildarliðið Lyngby og spilar því með liðinu á næsta tímabili.

Lyngby greinir frá tíðindunum á heimasíðu sinni, en Alfreð gekk til liðs við félagið í lok ágúst á síðasta ári.

Alfreð lék þrettán leiki með Lyngby á nýafstöðnu tímabili í dönsku úrvalsdeildinni og spilaði stórt hlutverk í fallbaráttunni með liðinu sem endaði með því að Lyngby hélt sæti sínu í deild þeirra bestu á ótrúlegan hátt.

„Ég mun aldrei gleyma síðasta tímabili. Þessi endurkoma og þessi samstaða sem við sýndum var algjörlega einstök og það er eitt af mínum mestu afrekum á ferlinum að hafa verið hluti af þessu liði,“ sagði Alfreð í samtali við heimasíðu Lyngby.

Í deildinni lék Alfreð tíu leiki fyrir Lyngby undir stjórn Freys Alexanderssonar og skoraði í þeim þrjú mörk. Í viðtali við Vísi í gær sagði Alfreð frá því hvernig liðið var 16 stigum frá öruggu sæti um jólin, en Freyr hafi haldið hópnum gangandi og í raun hafi þurft netta geðveiki til að hafa trú á verkefninu.

Hann greindi svo frá því í sama viðtali að bæði væri vilji frá honum og félaginu að hann myndi vera eitt ár í viðbót hjá Lyngby og nú er það orðið staðfest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×