Enski boltinn

Getur ekki hætt og mun þjálfa þangað til hann verður 75 ára

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þrátt fyrir að verða 75 ára síðar á árinu lætur Warnock skapið enn hlaupa með sig í gönur.
Þrátt fyrir að verða 75 ára síðar á árinu lætur Warnock skapið enn hlaupa með sig í gönur. George Wood/Getty Images

Gamla brýnið Neil Warnock hefur ákveðið að feta í fótspor Roy Hodgson og þjálfa fótbolta þangað til hann verður 75 ára gamall. Huddersfield Town staðfesti í dag að Warnock myndi stýra liðinu á næstu leiktíð eftir að hafa bjargað þeim frá falli á nýafstaðinni leiktíð.

Warnock hefur marga fjöruna sopið og sagðist vera hættur knattspyrnuþjálfun þegar Huddersfield bað hann um að koma og bjarga liðinu frá falli. Þegar hans gamla lið – Warnock þjálfaði Huddersfield fyrir 30 árum – hafði samband í febrúar síðastliðnum gat hann ekki neitað.

Nú hafa hann og aðstoðarmaður hans, Ronnie Jepson, samþykkt að stýra liðinu í ensku B-deildinni á komandi leiktíð.

„Þeir búa yfir gríðarlegri þekkingu og hæfileikum, það var ljóst eftir það sem þeir afrekuðu hér á síðustu leiktíð. Tenging þeirra við klúbbinn og stuðningsfólkið er einnig dýrmæt,“ sagði Jake Edwards, framkvæmdastjóri Huddersfield, þegar tilkynnt var að tvíeykið yrði áfram.

Huddersfield var í 23. sæti af 24, stigi frá öruggu sæti, þegar Warnock og Jepson tóku við því. Liðið endaði í 18. sæti, níu stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Hér að neðan má sjá þjálfaraferil Warnock sem spannar frá árinu 1980 til dagsins í dag.

  • 1980–1981 Gainsborough Trinity
  • 1981–1986 Burton Albion
  • 1986–1989 Scarborough
  • 1989–1993 Notts County
  • 1993 Torquay United
  • 1993–1995 Huddersfield Town
  • 1995–1997 Plymouth Argyle
  • 1997–1998 Oldham Athletic
  • 1998–1999 Bury
  • 1999–2007 Sheffield United
  • 2007–2010 Crystal Palace
  • 2010–2012 Queens Park Rangers
  • 2012–2013 Leeds United
  • 2014 Crystal Palace
  • 2015 Queens Park Rangers 
  • 2016 Rotherham United
  • 2016–2019 Cardiff City
  • 2020–2021 Middlesbrough
  • 2023– Huddersfield Town



Fleiri fréttir

Sjá meira


×