Erlent

Þrír drepnir og reynt að keyra fólk niður með sendi­bíl í Notting­ham

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn standa vörð við lokaða götu í miðborg Nottingham.
Lögreglumenn standa vörð við lokaða götu í miðborg Nottingham. AP/Jacob King

Rúmlega þrítugur karlmaður er í haldi lögreglunnar í Nottingham á Englandi grunaður um morð eftir að þrír fundust látnir í miðborginni í nótt. Þrír til viðbótar eru á sjúkrahúsi eftir að reynt var að aka þá niður. Lögregla lýsir atvikinu sem „hryllilegu og sorglegu“.

Tveir fundust látnir úti á götu á Ilkeston-vegi skömmu eftir klukkan þrjú að íslenskum tíma í nótt, að sögn lögreglunnar í Nottingham. Lögreglumenn voru síðan kallaðir til Milton-strætis þar sem reynt hafði verið að aka sendiferðabíl yfir þrjár manneskjur. Síðar fannst þriðji maðurinn látinn á Magdala-vegi.

Kate Meynell, lögreglustjóri í Nottingham, segir að lögreglan telji að atvikin þrjú tengist og maður sé í haldi. Rannsókn málsins sé þó á frumstigi.

Nokkrar götur í miðborginni voru enn lokaðar með lögregluborðum í morgun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sporvagnaþjónusta liggur niðri vegna atburðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×