Enski boltinn

Verra að missa af HM heldur en að vera dæmdur í átta mánaða bann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ivan Toney grætur það að hafa ekki farið á HM í Katar undir lok árs 2022.
Ivan Toney grætur það að hafa ekki farið á HM í Katar undir lok árs 2022. Jacques Feeney/Getty Images

Ivan Toney, framherji Brentford, var nýverið dæmdur í 8 mánaða bann fyrir brot á veðmálareglum ensku úrvalsdeildarinnar. Hann segir það verra að hafa ekki verið hluti af enska landsliðshópnum á HM í Katar undir lok síðasta árs en að mega ekki spila og æfa næstu mánuði.

Toney var dæmdur í síðasta mánuði eftir að hafa viðurkennt 232 brot á regluverki ensku úrvalsdeildarinnar. Hann var upphaflega ákærður í nóvember á síðasta ári og var því ekki í 26 manna hópnum sem Gareth Southgate tók á HM í Katar. Framherjinn hefur nú í fyrsta skipti tjáð sig opinberlega um bannið.

„Það er gott að finna fyrir stuðning en ég vil ekki að neinn vorkenni mér. Þó ég missi af átta mánuðum af fótbolta þá var mesta refsingin að missa af HM, það dreymir alla um að spila á HM,“ sagði hinn 27 ára gamli Toney.

Hann var upphaflega valinn í landsliðshóp Englands í september á síðasta ári en spilaði ekki og var ekki valinn í hópinn sem fór á HM vegna rannsóknar enska knattspyrnusambandsins.

Toney var greindur með spilafíkn og fékk því styttra bann en ella. Þá má hann byrja að æfa með Brentford í september, fjórum mánuðum áður en banninu lýkur.

„Ég gerði það sem ég gerði, refsingin er refsingin og við höldum áfram. Ég verð bara að einbeita mér að því hvenær ég get hafið æfingar að nýju. Ég vil vera annað dýr þegar ég sný aftur til æfinga. Það verður ógnvekjandi.“

Toney endaði sem þriðji markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á nýafstaðinni leiktíð með 20 mörk. Aðeins Erling Braut Håland og Harry Kane skoruðu meira.


Tengdar fréttir

Toney veðjaði þrettán sinnum á tap félaga sinna

Enska knattspyrnusambandið hefur nú greint nánar frá ástæðunum fyrir því að Ivan Toney, framherji Brentford og enska landsliðsins, var dæmdur í átta mánaða bann fyrir að veðja á leiki. Bannið var stytt eftir að Toney var greindur með veðmálafíkn.

Ton­ey í átta mánaða bann

Framherjinn Ivan Toney, leikmaður Brentford í ensku úrvalsdeildinni, hefur verið dæmdur í átta mánaða bann vegna 232 brota á veðmálareglum deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×