Fótbolti

HM-sætið hefði skilað stelpunum okkar að minnsta kosti fjórum milljónum á mann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vonbrigðin leyndu sér ekki þegar ljóst var að HM-draumurinn væri úti.
Vonbrigðin leyndu sér ekki þegar ljóst var að HM-draumurinn væri úti. Vísir/Vilhelm

Í fyrsta sinn í sögunni fá leikmenn á HM kvenna í knattspyrnu, sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar, greitt beint frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu FIFA. Stelpurnar okkar í íslenska landsliðinu hefðu þannig fengið að minnsta kosti fjórar milljónir króna á mann.

Hver leikmaður sem tekur þátt í riðlakeppni heimsmeistaramótsins fær 24 þúsund pund, tæplega 4,2 milljónir króna, í vasann að því er kemur fram í umfjöllun The Guardian um málið.

Sú upphæð mun svo hækka eftir því sem liðin komast lengra í mótinu og munu leikmenn sigurliðsins fá 217 þúsund pund í sinn hlut, en það samsvarar rétt tæpum 38 milljónum íslenskra króna.

Stelpurnar okkar í íslenska landsliðinu eru því ekki aðeins að missa af tækifærinu að spila á stærsta móti heims, heldur eru þær einnig að missa af ansi vænni peningasummu.

Raunar voru þær aðeins 90 sekúndum frá því að tryggja sér sæti á HM. Án þess að ætla að fara að rífa þau sár of mikið upp máttu stelpurnar þola gríðarlega svekkjandi 1-0 tap gegn Hollendingum í lokaumferð undankeppni HM í leik þar sem jafntefli hefði tryggt sætið. Tapið þýddi að Ísland fór í umspil gegn Portúgal, en tapaði þeim leik 4-1 þar sem dómari leiksins var í aðalhlutverki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×