Fótbolti

Setur stefnuna á undanúrslit EM

Aron Guðmundsson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari u19 karlaliðs Íslands í fótbolta
Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari u19 karlaliðs Íslands í fótbolta Vísir/Skjáskot

Leik­manna­hópur undir 19 ára karla­lands­liðs Ís­lands í knatt­spyrnu, fyrir komandi Evrópu­mót á Möltu í næsta mánuði, var opin­beraður í dag. Tveir af bestu leik­mönnum liðsins, þeir Orri Steinn Óskars­son og Kristian Nökkvi Hlyns­son, fengu ekki grænt ljós frá sínum fé­lags­liðum á að leika með Ís­landi á mótinu.

Ís­lenska liðið á fyrir höndum ærið verk­efni á EM á Möltu í næsta mánuði þar sem að liðið er í riðli með Spán­verjum, Grikkjum og Norð­mönnum. Ljóst er að Ólafur Ingi Skúla­son, þjálfari liðsins, þarf að finna svör í leik sinna manna í tengslum við fjar­veru Orra Steins og Kristians Nökkva, sem komu saman að flestum mörkum Ís­lands í undan­keppni mótsins.

Orri Steinn Óskarsson hefur skorað sex af síðustu níu mörkum u19 ára landsliðsinsVísir/Hulda Margrét

„Hvorki Orri Steinn né Kristian Nökkvi fengu leyfi til þess að fara með okkur í mótið,“ sagði Ólafur Ingi eftir að hópur liðsins hafði verið opin­beraður. „Það er eitt­hvað sem við vorum búnir að undir­búa. Fé­lögin geta neitað okkur leik­mennina og því vissum við að það væri mögu­leiki á því að þessir tveir leik­menn, sem eru á þessum tíma að fara hefja undir­búnings­tíma­bil með aðal­l­iðum sinna fé­lags­liða, fengju ekki að vera með.“

Hann segir stöðuna sem upp er komin aðal­lega svekkjandi fyrir leik­mennina sjálfa.

„Leiðin­legt fyrir þá að missa af mögu­leika á að fara í loka­keppni, það er gríðar­leg reynsla sem þeir missa af þar og þeir hafa náttúru­lega verið stór þáttur í þessu liði. Maður er því mest svekktur fyrir þeirra hönd.“

Ís­land sé hins vegar með hörkulið, gott lið, það komi bara maður í manns stað.

„Daníel Tristan Guð­john­sen kemur til að mynda inn í hópinn á ný. Hann var með okkur í nóvember og þar er á ferðinni frá­bær leik­maður. Svo eigum við leik­mann eins og Hilmi Rafn Mikaels­son of fleiri sem geta skorað mörk. Ég hef engar á­hyggjur af þessu.

Kristian Nökkva er hins vegar að finna í lands­liðs­hópi Ís­lands, sem er jafnan fyrsti lands­liðs­hópurinn sem Åge Hareide velur. Ólafur Ingi setur sig ekki upp á móti því að Kristian Nökkvi leiki með A-lands­liðinu í komandi verk­efni.

„A-liðið gengur alltaf fyrir og það var í rauninni aldrei neitt vanda­mál af okkar hálfu. Við vissum að Ajax myndi ekki hleypa honum í verk­efnið með u19 liðinu og hann stendur til boða fyrir u21- og A-lands­lið okkar.

Kristian Nökkvi Hlynsson er leikmaður hollenska stórliðsins Ajax og átti stóran þátt í að koma U19-landsliðinu á EM.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Kristian Nökkvi er náttúru­lega bara frá­bær leik­maður, fram­tíðar leik­maður ís­lenska lands­liðsins. Ég fagna því bara að hann sé núna með A-lands­liðinu, það er frá­bært tæki­færi fyrir hann.“

Ólafur Ingi segir undir­búning fyrir komandi Evrópu­mót, sem fer fram í Möltu í næsta mánuði, ganga vel.

„Við náum að­eins að hitta þá leik­menn sem eru hérna heima í glugganum. Þar munum við farið náið í ýmsa hluti sem við höfum kannski ekki tíma í að fara yfir í Möltu. Svo verður lagt af stað 30. júní en leik­menn eiga þangað til eftir að spila leiki með sínum fé­lags­liðum. Menn verða því bara fyrst og fremst að halda sér í formi og spila vel með sínum liðum og mæta í góðu formi út til Möltu.“

Þá eru mark­miðin skýr fyrir komandi mót.

„Mark­miðið er klár­lega að komast upp úr riðlinum og í undan­úr­slit. Ég hef sagt það marg­oft í tengslum við þetta lið að þegar að við hittum á okkar dag, eins og við gerðum úti í Eng­landi þar sem við unnum Ung­verja sem og Eng­lendinga og gerum jafn­tefli við Tyrki, þá eigum við mögu­leika gegn öllum liðum. Ef við náum há­marks frammi­stöðu, þá tel ég okkur alveg geta komist upp úr þessum riðli.“

Klippa: Stefnan sett á undanúrslit á EM



Fleiri fréttir

Sjá meira


×