Enski boltinn

Atlético Madrid vill fá Zaha

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wilfried Zaha skoraði sjö mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Wilfried Zaha skoraði sjö mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. getty/James Williamson

Diego Simeone hefur mikinn áhuga á að fá Wilfried Zaha, leikmann Crystal Palace, til Atlético Madrid.

Samningur Zahas við Palace rennur út eftir næsta tímabil. Hann liggur núna undir feldi og íhugar hvort hann eigi að samþykkja samningstilboð félagsins eða reyna fyrir hjá öðru félagi. Palace hefur boðið Zaha samning sem færir honum tvö hundruð þúsund pund í vikulaun. Hann þarf að svara félaginu innan fjögurra vikna.

Atlético er meðal félaga sem hefur áhuga á Zaha og gæti reynt að fá hann ef hann framlengir ekki við Palace. Atlético reyndi að kaupa hann fyrir þremur árum og gæti reynt aftur núna.

Félög í Miðausturlöndum hafa líka áhuga á Zaha. Sádíarabísku meistararnir Al-Ittihad ku hafa boðið honum mjög góðan samning en líklegra er að hann fari til Spánar, ef hann fer frá Palace á annað borð.

Zaha, sem er þrítugur, er jafnan talinn besti leikmaður í sögu Palace. Hann hefur leikið 315 leiki fyrir félagið og skorað 72 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×