Innlent

Auka­fundur stendur yfir hjá ríkis­stjórninni vegna verð­bólgunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar sitja nú á fundi í Ráðherrabústaðnum.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar sitja nú á fundi í Ráðherrabústaðnum. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin fundar þessa stundina í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Tilefnið er staðan í efnahagsmálum hér á landi í aðdraganda síðari umræðu ríkisfjármálaáætlunar á Alþingi.

Ráðherrar vildu lítið gefa uppi þegar þeir mættu til fundarins á ellefta tímanum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með formönnum flokka í morgun vegna yfirvofandi sex prósenta launahækkunar æðstu ríkisstarfsmanna. Launahækkun sem fjármálaráðherra hefur lýst sem eiginlegri launalækkun vegna verðbólgunnar.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ræddi stuttlega við Helenu Rós Sturludóttur, fréttamann okkar, þegar hann mætti til fundarins. Hann sagði ríkisfjármál vera efni aukafundarins en ríkisstjórnin fundar vikulega að morgni þriðjudags og föstudags.

„Það bara styttist í síðari umræðu ríkisfjármálaáætlunar á þingi þannig að það er alveg ástæða til að ræða það sérstaklega í ljósi þeirra efnahagsaðstæðna sem eru,“ sagði Willum og játti því að verðbólgan yrði á dagskrá fundarins.

Þó væri ekki skynsamlegt að ræða frekar efni fundarins enda ætti hann að einhverju leyti eftir að komast betur á því á fundinum sjálfum. Þá væri hann boðinn og búinn til að ræða frekar við fjölmiðla.


Tengdar fréttir

Forysta SA þarf að „standa í lappirnar“ gegn ó­­raun­hæfum launa­­kröfum

Seðlabankastjóri gagnrýnir forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og segir þá þurfa að „standa meira í lappirnar“ þegar kemur að óraunhæfum kröfum verkalýðsfélaganna um miklar nafnlaunahækkanir en síðustu vaxtahækkanir bankans sýni að það kosti atvinnurekendur að gera dýra kjarasamninga. Kjölfesta verðbólguvæntinga hefur laskast og seðlabankastjóri viðurkennir að bankinn hafi mögulega gert mistök síðasta haust með því að tala ekki skýrar að hann myndi halda áfram sínu striki óháð því hvað aðrir armar hagstjórnarinnar myndu gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×