Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að það sé góðs viti að viðræður séu í gangi.
„Þetta var langur fundur og það er auðvitað mjög gott þegar það er samtal á milli aðilanna og við erum að vonast til þess að við séum að þokast nær hvort öðru.“
Samband íslenskra sveitarfélaga hafi fikrað sig nær kröfum BSRB.
„Þetta er auðvitað alltaf samtal sem er í gangi. Við erum bæði með stór baklönd þannig að það er erfitt að segja hver niðurstaðan gæti orðið en það er klárlega verði að sýna samningsvilja á báða bóga.“
Það sé þó tvennt sem BSRB geti ekki hvikað frá þrátt fyrir góðan samningsvilja.
„Það er að við séum að tryggja sömu laun fyrir sömu störf og sömuleiðis að það verði að lyfta allra lægstu laununum eins og hefur verði gert hjá Reykjavíkurborg þannig að verið sé að jafna launin þvert á sveitarfélögin,“ segir Sonja.
Næsti fasi verkfallsaðgerða vofir yfir viðræðum
Vonir eru nýhafinn fund og stefnt að því að hann verði í lengri kantinum. Verkföll hafa nú staðið yfir í rúmar tvær vikur. Þrýstingurinn eykst eftir því sem dagarnir líða samhliða stigmögnun verkfallsaðgerða. Ef samningsaðilar ná ekki saman fyrir mánudag hefst nýr og beittari fasi aðgerða.
„Á mánudag, eins og varðandi leikskólana, þá leggur fólkið okkar sem starfa þar í 29 sveitarfélögum alfarið niður störf fram að 5. júlí og svo auðvitað bætast við fleiri staðir. Þetta eru áhaldahúsin, bæjarskrifstofurnar og þetta verður ótímabundið verkfall þar samningar nást varðandi sundlaugar og íþróttamannvirki. Það getur líka haft áhrif á vinnuskóla og almenningssamgöngur þannig að það bætist í fjölda starfa og sömuleiðis fjölda fólks sem leggur niður störf.“
Sonja segir að bandalagið finni fyrir miklum stuðningi. „Við erum gríðarlega þakklát fyrir það og við finnum að það er að hafa áhrif. Ég vil líka færa bestu þakkir til foreldranna sem skipulögðu mótmæli í Kópavogi í gær. Ég held að þetta hafi tvímælalaust allt sitt að segja.“