Það var Ansu Fati sem kom Börsungum yfir gegn Mallorca strax á fyrstu mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Gavi. Gestirnir gerðu sér svo enn erfiðara fyrir þegar Amath Ndiaye fékk að líta beint rautt spjald á 14. mínútu leiksins og Mallorca þurfti því að spila manni færri það sem eftir lifði leiks.
Börsungar nýttu sér liðsmuninn og Ansu Fati bætti öðru marki sínu við tíu mínútum síðar eftir stoðsendingu frá Robert Lewandowski og staðan var því 2-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Heimamenn gerðu svo endanlega út um leikinn þegar um tuttugu mínútur voru eftir þegar Gavi kom boltanum í netið eftir undirbúning Ousmane Dembele.
Niðurstaðan því 3-0 sigur Barcelona sem hefur nú þegar tryggt sér spænska meistaratitilinn.
🚨 FULL TIME!!!!!!!!!!#BarçaMallorca #FinsAviatSCN pic.twitter.com/4S5L8gojcA
— FC Barcelona (@FCBarcelona) May 28, 2023
Þá vann Atlético Madrid mikilvægan 2-1 sigur er liðið tók á móti Real Sociedad á sama tíma. Antoine Griezmann og Nahuel Molina sáu um markaskorun heimamanna áður en Alexander Sorloth minnkaði muninn fyrir gestina.
Atlético Madrid er nú í þriðja sæti deildarinnar með 76 stig þegar ein umferð er eftir af tímabilinu, einu stigi minna en nágrannar þeirra í Real Madrid sem sitja í öðru sæti.
Real Sociedad situr hins vegar í fjórða sæti með 68 stig og getur hvorki farið ofar né neðar í lokaumferðinni.
Úrslit dagsins
Almeria 0-0 Real Valladolid
Athletic Bilbao 0-1 Elche
Atlético Madrid 2-1 Real Sociedad
Barcelona 3-0 Mallorca
Cadiz 1-0 Celta Vigo
Getafe 2-1 Osasuna
Girona 1-2 Real Betis
Rayo Vallecano 2-1 Villarreal
Valencia 2-2 Espanyol