Eins og allir vita þá greindist riða á tveimur sauðfjárbúum í Vestur – Húnavatnssýslu snemma í vor og þurfti að skera niður allt fé á báðum bæjum. Líkt og í Vestur Húnavatnssýslu er líka mikið um sauðfé í Austur – Húnavatnssýslu og þar hafa bændur áhyggjur á að riða geti líka blossað upp.
Pétur Arason er sveitarstjóri Húnabyggðar.
„Þetta er náttúrulega bara grafalvarlegt mál. Þetta kom núna upp í hólfi, sem hefur ekki komið upp áður, sem sýnir það að það er engin óhultur. Það hefur verið riða hér á mörgum stöðum í sveitarfélaginu og ekki langt síðan að hún var hinum megin við okkur hérna í Skagafirði þannig að við erum mjög hugsi yfir þessu öllu,“ segir Pétur.
Pétur segir að stjórnvöld verði að breyta sínum áherslum í riðumálum og niðurskurði í kjölfarið.
„Af því að við trúum ekki á það að þessi niðurskurðaaðferð sé leið til að leysa þetta mál til framtíðar. Niðurskurðaleiðin er meira einhver nauðvarnarstefna, sem var tekin upp þegar þessi mál voru á mjög slæmum stað en í dag þurfum við bara að nálgast þetta á annan hátt.“

Pétur segir að nú þurfi númer 1, 2 og 3 að rækta verndandistofna af sauðfé til að vinna á meininu, sem riðuveiki er.
„Og aðrar þjóðir hafa í raun og veru gert það þannig með því að rækta þessa verndandiarfgerð, sem er kallað ARR í íslensku sauðkindinni. Þetta er eitthvað, sem bændur þurfa núna í rauninni að setja fókus á til þess að við þurfum ekki að hafa þessa vofu yfir okkur að riðan geti slegið niður á einhver býli hérna í sveitarfélaginu,“ segir Pétur.
Þannig að þú vilt ekki bara skera og skera ef það kemur upp riða?
„Nei, ég trúi bara alls ekki á það,“ segir Pétur enn fremur.