Með sigrinum jafnaði Fredericia metin í einvígi liðanna í 1-1. Þau mætast í oddaleik í Álaborg á sunnudaginn kemur.
„Það var frábært að upplifa þetta en mér fannst við spila mjög vel,“ sagði Guðmundur glaður eftir leikinn í gær.
„Við byrjuðum fyrst að gera tæknileg mistök í seinni hálfleik með nokkrum línusendingum. En síðan tókum við leikhlé, komumst hægt og sígandi inn í leikinn eftir það og að vinna svona var virkilega gott. Sóknin var stórkostleg í dag.“
Guðmundur hefur unnið frábært starf á fyrsta tímabili sínu með Fredericia og komið liðinu í undanúrslit um danska meistaratitilinn í fyrsta sinn síðan 1980.
Federica endaði í 7. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar sem tryggði liðinu sæti í úrslitakeppninni. Það hóf keppni með ekkert stig en eftir fjóra sigra, eitt jafntefli og aðeins eitt tap lenti Fredericia í 2. sæti síns riðils og komst í undanúrslit deildarinnar.
Í viðtali við staðarblaðið í Fredericia lét formaður félagsins, Bent Jensen, hafa eftir sér að það hafi náð markmiðum sínum tveimur árum á undan áætlun.
„Markmiðið var að koma Federicia aftur á þann stað að geta keppt til verðlauna árið 2025. Við stöndum hér árið 2023 og eigum möguleika á titli. Það eru forréttindi,“ sagði Jensen.
Guðmundur kveðst sjálfur bjartsýnn fyrir oddaleikinn gegn Álaborg. „Við erum með alla möguleika núna,“ sagði þjálfarinn þrautreyndi.