Fótbolti

Valencia þarf að vera með tóma stúku í fimm leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinicius Junior var skiljanlega mjög ósáttur við stuðningsmenn Valencia.
Vinicius Junior var skiljanlega mjög ósáttur við stuðningsmenn Valencia. Getty/Mateo Villalba

Spænska knattspyrnusambandið hefur brugðist hart við þeirri meðferð sem brasilíski framherjinn Vinicius Junior fékk frá stuðningsmönnum Valencia á dögunum.

Vinicius Junior hefur fengið mikinn stuðning alls staðar að úr knattspyrnuheiminum eftir að hafa orðið fyrir hatursfullu kynþáttaníði í leiknum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi frábæri leikmaður lendir í slíku á Spáni og hann var mjög harðorður á samfélagsmiðlum eftir leikinn.

Spænska sambandið fékk á sig harða gagnrýni og hefur nú svarað því með viðurlögum gegn Valencia.

Valencia fær ekki aðeins 45 þúsund evra sekt heldur einnig má ekki vera með áhorfendur í vandamálastúkunni. 45 þúsund evrur eru um 6,8 milljónir íslenskra króna.

Mesta athygli vekur áhorfendabannið. Í næstu fimm leikjum mega áhorfendur ekki vera í Mario Kempes stúkunni sem er suðurstúka leikvangsins.

Það er talið að kynþáttaníðið gegn Vinicius Junior hafi að mestu komið þaðan.

Mestalla leikvangurinn tekur 49 þúsund áhorfendur og er áttundi stærsti leikvangur Spánar.

Forráðamenn Valencia eru ekki sáttir og ætla að áfrýja dómnum.

Vinicius Junior fékk rautt spjald í látunum í lokin en það rauða spjald hefur jafnframt verið dregið til baka. Hann má því spila á móti Real Vallecano í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×