Innlent

Aflýsa flugi en björgunarsveitir ekki farið í útköll

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Raskanir hafa orðið á innanlandsflugi í dag.
Raskanir hafa orðið á innanlandsflugi í dag. vísir/vilhelm

Fjöldi flugferða á Keflavíkurflugvelli hefur verið aflýst vegna óveðurs. Björgunarsveitir hafa ekki farið í nein útköll sem stendur. 

Samkvæmt brottfaratöflu Isavia hefur níu af tuttugu ferðum Icelandair verið aflýst í dag. 

„Evrópuflugi hingað til lands hefur verið seinkað og flestar vélar, sem áttu að koma mun fyrr, eru að koma á milli sex og sjö. Þá erum við að vonast til að það verði búið að lægja nóg. Þessar aflýsingar eru vegna þess að afgreiðslutímar á flugvöllum erlendis hamla því að við getum flogið þangað, vegna seinkunarinnar,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Upplýsingar verði sendar til farþega og eru farþegar beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum sem berast.

Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia hafa landgangarnir ekki verið notaðir enn.  

Gul viðvörun er enn í gildi á öllu landinu utan Austfjarða. Viðvörunin gildir til klukkan 18 á morgun, miðvikudag. Á suðvesturhorninu er 15-23 m/s, skúrir eða slydduél. Draga á úr vindi í nótt. 

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að björgunarsveitir hafi enn ekki farið í neitt útkall.

„Við bjuggumst við fljúgandi trampolínum og hvaðeina, en það hefur enn ekkert borist,“ segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×