Enski boltinn

Chelsea á toppinn þegar tvær um­ferðir eru eftir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný og stöllur áttu ekki mikla möguleika í kvöld.
Dagný og stöllur áttu ekki mikla möguleika í kvöld. Zac Goodwin/Getty Images

Englandsmeistarar Chelsea eru komnar á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-0 sigur á Dagnýju Brynjarsdóttur og stöllum í West Ham United. Einnig vann Arsenal 4-1 sigur á Everton.

Chelsea hefur hægt og bítandi verið að ná vopnum sínum og var sigur kvöldsins fimmti sigurleikurinn í deildinni í röð. Þá hefur liðið skorað 17 mörk í síðustu þremur leikjum í deildinni. Ofan á það varð Chelsea bikarmeistari á dögunum eftir 1-0 sigur á Manchester United.

Það var ljóst að verkefni Hamranna var erfitt í kvöld en Dagný og stöllur stóðu sig með prýði í fyrri hálfleik. Niamh Charles kom Chelsea yfir eftir 13 mínútur en það reyndist eina mark hálfleiksins.

Pernille Harder tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks og eftir það var ljóst hvort liðið myndi taka stigin þrjú heim. Sophie Ingle gulltryggði sigurinn á 62. mínútu og þremur mínútum síðar var Dagný tekin af velli.

Erin Cuthbert bætti við fjórða marki Chelsea þegar uppbótartíminn var svo gott sem liðinn og Englandsmeistararnir eru komnir á topp deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. Tróna þær á toppnum með 52 stig, tveimur meira en Man United.

Í fyrri leik kvöldsins vann Arsenal 4-1 útisigur á Everton. Sá leikur var búinn í hálfleik en Arsenal skoraði fjögur mörk á 13 mínútna kafla. Caitlin Foord braut ísinn, Katie McCabe tvöfaldaði forystuna, Foord bætti við öðru marki sinu og þriðja marki Arsenal áður en Carlotte Wubben-Moy bætti við fjórða markinu.

Þrátt fyrir að Agnes Beever-Jones hafi fengið rautt spjald í liði Everton á 49. mínútu þá virtist Arsenal ekki hafa mikinn áhuga á að niðurlægja heimaliðið. Katja Snoeijs minnkaði muninn fyrir Everton undir lok leiks og þar við sat, lokatölur 1-4.

Skytturnar eru í 3. sæti með 47 stig og mæta Chelsea í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×