Enski boltinn

„Líður eins og þú sért einn í heiminum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
David Raya hefur spilað fyrir Brentford síðan 2019.
David Raya hefur spilað fyrir Brentford síðan 2019. Alex Davidson/Getty Images

David Raya, markvörður Brentford í ensku úrvalsdeildinni, segir að markmannsstaðan sé sú erfiðasta á knattspyrnuvellinum vegna þess hversu strembin hún er andlega.

Hinn 27 ára gamli Raya hefur átt mjög gott tímabil í liði Brentford en vorið 2020 taldi hann feril sinn hjá félaginu búinn. Raya gerði sig þá sekan um mistök í úrslitaleik umspilsins um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Joe Bryan skoraði úr aukaspyrnu utan af kanti og Fulham fór upp í ensku úrvalsdeildina á kostnað Brentford.

„Ég veit að ég hefði getað gert betur, var ekki að fylgjast nægilega vel með. Skildi aðra hliðina of opna,“ segir Raya í viðtali við ESPN þar sem farið er yfir markmannsstöðuna.

„Ég gat ekki látið það draga mig niður því við vorum í framlengingu í úrslitaleik umspilsins og við hefðum getað jafnað metin,“ svo fór ekki en Ryan skoraði aftur í framlengingunni áður en Brentford minnkaði muninn.

„Eftir leik leið mér eins og ég hefði brugðist öllum. Það var mjög slæm lífsreynsla. Ég hafði verið í þessari stöðu margoft yfir tímabilið og komið í veg fyrir fullt af mörkum en hann ákvað að skjóta og boltinn fór inn.“

„Þér líður eins og þú sért einn í heiminum og allar slæmu hugsanirnar skjótast upp í höfuðið á þér. Ef ég hefði gert betur þá hefðum við mögulega komist upp um deild. Hversu stórt þetta var skall á mér nokkrum dögum síðar.“

Raya kom sterkari til baka og hjálpaði Brentford upp í ensku úrvalsdeildina. Nú er hann með betri markvörðum deildarinnar og var valinn hluti af spænska landsliðshópnum sem fór á HM í Katar.

„Stundum er maður líka hetjan. Markvörslurnar þínar geta tryggt sigra. En þú verður að muna að á einhverjum tímapunkti muntu gera mistök og allir munu einbeita sér að þér,“ segir Raya að endingu.

Með aukinni áherslu á að spila út frá marki og nýta markvörðinn í uppspili er ljóst að markverðir eru líklegri til að gera mistök. Hvort þau brjóti þá eða styrki er undir andlegum styrk markvarðanna komið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×