Leikmannasamtök MLS-deildarinnar í knattspyrnu hafa gefið út launatölur leikmanna deildarinnar á ársgrundvelli. Listinn inniheldur leikmenn sem eru með núgildandi samning við lið í MLS deildinni.
Fjórir Íslendingar, þeir Guðlaugur Victor Pálsson, Dagur Dan Þórhallsson, Róbert Orri Þorkelsson og Þorleifur Úlfarsson, eru á mála hjá liðum í deildinni.
Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður D.C. United er langlaunahæsti Íslendingur deildarinnar með 875 þúsund Bandaríkjadali í grunnlaun á ársgrundvelli. Það jafngildir rúmum 122,7 milljónum íslenskra króna.
Með bónusgreiðslum er Guðlaugur Victor að þéna rúma 892 þúsund Bandaríkjadali á ársgrundvelli. Rúmar 125 milljónir íslenskra króna.
Þorleifur Úlfarsson er á mála hjá Houston Dynamo og samkvæmt launatölum sem leikmannasamtökin gefa frá sér þénar hann rúma 85 þúsund Bandaríkjadali í grunnlaun á ársgrundvelli. Það jafngildir tæpum 12 milljónum íslenskra króna.
Með bónusgreiðslum er Þorleifur að þéna rúma 97 þúsund Bandaríkjadali, rúmar 13,6 milljónir íslenskra króna.

Dagur Dan Þórhallsson er á mála hjá Orlando City og er þar að þéna 160 þúsund Bandaríkjadali í grunnlaun á ársgrundvelli. Það jafngildir rúmum 22,4 milljónum íslenskra króna.
Með bónusgreiðslum kemur fram í gögnum frá leikmannasamtökunum að Dagur sé að þéna rúma 195 þúsund Bandaríkjadali, eða rétt rúmar 27 milljónir íslenskra króna.
Róbert Orri Þorkelsson, varnarmaður CF Montreal, þénar 175 þúsund Bandaríkjadali í grunnlaun á ársgrundvelli. Það jafngildir rétt rúmum 24,5 milljónum íslenskra króna.
Með bónusgreiðslum er hann sagður vera með 198,5 þúsund Bandaríkjadali í árslaun, rúmar 27,8 milljónir íslenskra króna.
Svissneski miðjumaðurinn Xerdan Shaqiri, leikmaður Chicago Fire FC er launahæsti leikmaður MLS deildarinnar ef bónusgreiðslur eru teknar með.

Shaqiri, sem eitt sinn var á mála hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Liverpool, þénar rúmar 8,1 milljónir Bandaríkjadala á ársgrundvelli, rétt rúman 1,1 milljarð íslenskra króna.
Ef aðeins grunnlaun eru tekin fyrir má sjá að Ítalinn Lorenzo Insigne, leikmaður Toronto FC, trónir á toppi launalistans með 7,5 milljónir Bandaríkjadala í laun á ársgrundvelli. Það jafngildir rétt rúmum 1 milljarði íslenskra króna.