Lífið

Sjáðu langþráðan Eurovision-flutning Daða Freys

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Daði Freyr á Eurovision-sviðinu í kvöld.
Daði Freyr á Eurovision-sviðinu í kvöld.

Daði Freyr Pétursson flutti í fyrsta sinn lag á Eurovision-sviði í kvöld, þrátt fyrir að hafa í tvígang verið valinn fulltrúi Íslands í keppninni. Daði Freyr heillaði áhorfendur á úrslitakvöldi keppninnar í Liverpool með lagi úr smiðju bresku stúlknasveitarinnar Atomic Kitten.

Daði Freyr var eins og frægt er fulltrúi Íslands í Eurovision Covid-árið 2020, þegar keppninni var aflýst. Hann og Gagnamagnið kepptu svo í Rotterdam árið eftir en vegna Covid-smits í hópnum var aðeins spiluð upptaka af flutningi þeirra á aðalkvöldinu það árið. 

Það var svo loksins í Eurovision-höllinni í Liverpool í kvöld sem Daði Freyr fékk að stíga á eiginlegt Eurovision-svið. Hann var þar hlut af svokallaðri Liverpool songbook, eða Söngbók Liverpool þar sem fyrrverandi Eurovision-stjörnur fluttu ódauðlega breska slagara, og raunar frá Liverpool nánar tiltekið.

Fyrstur í söngbókinni var hinn ítalski Mahmood, sem tók bæði þátt 2019 og 2022. Hann flutti angurværa útgáfu af Imagine með Bítlinum John Lennon. Aðrar Eurovision-goðsagnir í atriðinu auk Mahmood og Daða voru hin ísraelska Netta, hin sænska Cornelia Jakobs, Duncan Laurence frá Hollandi og Sonia, innfædd frá Liverpool.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×