Enski boltinn

„Þreyta má aldrei vera notuð sem af­sökun“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erik ten Hag og David De Gea en sá spænski hefur haldið marki sínu hreinu oftast allra í ensku úrvalsdeildinni.
Erik ten Hag og David De Gea en sá spænski hefur haldið marki sínu hreinu oftast allra í ensku úrvalsdeildinni. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, segir að þreyta megi aldrei vera notuð sem afsökun en hans menn voru óhemju ferskir þegar þeir unnu Úlfana 2-0 í ensku úrvalsdeildinni fyrr í dag. Vika var frá síðasta leik liðsins og sást mikill munur á spilamennsku þessu.

„Við áttum erfiða viku. Við töpuðum mikilvægum stigum vegna einstaklingsmistaka en líka sökum þess hversu lágt orkustigið var. Það er ekki ásættanlegt. Í dag sýndum við hvað í okkur býr,“ sagði Ten Hag og átti þar við um 0-1 tapi gegn West Ham United um síðustu helgi.

„Þreyta má aldrei vera notuð sem afsökun. Sem leikmaður Man Utd þá verður þú að standa þig Þú verður að setja standardinn hátt, spila vel og taka ábyrgð. Bæði sem einstaklingur og sem lið.“

„Að vinan í dag þýðir ekkert ef við endum ekki í efstu þremur eða fjórum sætunum. Við þurfum að berjast fyrir því. Við þurfum að vera rólegir, yfirvegaðir, einbeittir og klárir í næsta leik. Við þurfum að vera vissir um að orkustigið sé rétt svo við getum barist og séð til þess að við komumst yfir línuna.“

„Hvað varðar spilamennskuna þá tel ég okkur hafa grunn. Einnig í menningunni, þar höfum við grunn. En við vitum að við þurfum að taka næstu skref ef við ætlum að berjast á toppi deildarinnar,“ sagði Ten Hag að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×