Enski boltinn

Sout­hampton fallið | For­est náði í stig á Brúnni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
James Ward-Prowse og félagar í Southampton eru fallnir.
James Ward-Prowse og félagar í Southampton eru fallnir. Charlie Crowhurst/Getty Images

Southampton er fallið úr ensku úrvalsdeildinni eftir 0-2 tap á heimavelli gegn Fulham. Þá náði Nottingham Forest í dýrmætt 2-2 jafntefli gegn Chelsea og Crystal Palace vann 2-0 sigur á Bournemouth.

Southampton var í vondum málum fyrir leik dagsins og segja má að fallið hafi blasið við. Eftir markalausan fyrri hálfleik þá negldu gestirnir frá Lundúnum síðustu naglana í kistuna.

Carlos Vinicius kom Fulham yfir í upphafi síðari hálfleiks og varamaðurinn Aleksandar Mitrović tvöfaldaði forystuna með marki þegar 18 mínútur voru til leiksloka. Fulham hefur saknað Mitrović sem hefur misst af síðustu leikjum vegna leikbanns.

Lokatölur á St. Mary´s-vellinum 0-2 og heimamenn í Southampton fallnir þó enn séu tvær umferðir eftir.

Á Brúnni tók Chelsea á móti Nottingham Forest. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli þar sem gestirnir í Forest komust yfir þökk sé marki Taiwo Awoniyi. Heimamenn svöruðu með tveimur mörkum frá Raheem Sterling áður en Awoniyi jafnaði metin á 62. mínútu.

Fleiri urðu mörkin ekki og leiknum lauk með 2-2 jafntefli.

Að lokum vann Palace þægilegan 2-0 sigur á Bournemouth þar sem Eberechi Eze skoraði bæði mörk heimamanna.

Southampton er í neðsta sæti með 24 stig eftir 36 leiki. Forest er í 16. sæti með 34 stig, Bournemouth í 14. sæti með 39 stig, Palace í 12. sæti með 43 stig líkt og Chelsea sem er sæti ofar. Fulham er svo í 9. sæti með 51 stig.


Tengdar fréttir

Aston Villa heldur í Evrópudrauma en vandræði Tottenham halda áfram

Aston Villa vann mikilvægan sigur er liðið tók á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur 2-1 og liðin eru nú jöfn að stigum í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar, en þetta var fjórða tap Tottenham í seinustu sex deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×