Myndbandið var tekið upp af eftirlitsmanni á vegum Matvælastofnunar og birti Heimildin fyrst hluta þeirra í dag. Kýrin sem sést í þessu tiltekna myndbandi er ein tveggja sem þurfti að skjóta með fjórum sprengiskutlum til þess að aflífa. Á tímastimplum sést að dauðastríðið stóð yfir í tvær klukkustundir og í skýrslu Matvælastofnunar segir að dýrið hafi líklega upplifað miklar þjáningar á þeim tíma.
Í myndbandinu sem sést í meðfylgjandi frétt sést blóðpollur myndast í kringum dýrið sem kemur reglulega upp og blæs og er skotið.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, ítrekaði í dag að ekki stæði til að afturkalla veiðileyfi Hvals hf. fyrir vertíðina sem nú er fram undan.
Bára Eyfjörð Heimisdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands fordæmir það og telur ljóst að brotið sé gegn lögum um dýravelferð
„Mér finnst mjög sérstakt að það hafi engar afleiðingar. Þeir skulu bara fara aftur út og veiða og ég skil ekki alveg hvernig það getur gengið ef við hugsum um velferð dýranna,“ segir Bára. Hún segir ljóst að dýrið hafi upplifað mikinn sárauka og mikla streitu að þetta fyrirkomulag yrði ekki liðið við aflífun annarra spendýra.
Bára segir vandséð að veiðin geti yfir höfuð uppfyllt lagakröfur. Undarlegt sé að fara inn í vertíðina með þessi gögn fyrirliggjandi.
„Ef við gerum þetta eins, og með þessum hætti, og það eru um þrjátíu prósent dýranna að líða miklar þjáningar er enginn vafi á því að við erum að brjóta gegn velferð dýra.“