Frekar en að láta drónann fljúga áfram stjórnlausan var hann skotinn niður yfir miðbæ Kænugarðs en íbúar, sem margir hverjir voru á leið í neðanjarðarbyrgi og lestarstöðvar, fönguðu atvikið á myndband.
Myndböndin sýna að skotið var á drónann úr byssum, sem hæfðu hann ekki. Honum var svo grandað með eldflaug og féll brak hans logandi til jarðar. Dróninn, sem var af gerðinni Bayraktar TB-2 og framleiddur í Tyrklandi, mun hafa verið skotinn niður af hermönnum sem sérhæfa sig í að skjóta niður dróna eins og Shahed-sjálfsprengidrónana frá Íran sem Rússar nota í miklu magni til árása í Úkraínu.
Í yfirlýsingu frá flugher Úkraínu segir að líklegast hafi verið um bilun að ræða og að málið sé til rannsóknar. Engan hafi sakað þegar dróninn var skotinn niður.
#Ukraine: A Ukrainian Bayraktar TB2 UCAV was shot down by a Ukrainian surface-to-air missile over Kyiv in an example of friendly fire. pic.twitter.com/r9m11PfXND
— Ukraine Weapons Tracker (@UAWeapons) May 4, 2023
Fregnir hafa borist af frekari sprengingum í Kænugarði en það hefur ekki verið staðfest. Rússar hafa gert tíðar árásir á höfuðborgina og aðrar borgir í Úkraínu á undanförnum dögum.
Þá hafa Rússar sakað Úkraínumenn um að bera ábyrgð á því að tveir drónar voru sprengdir í loft upp yfir Kreml í vikunni og saka þá um að hafa reynt að myrða Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Hann var þó ekki í Kreml þegar sprengingarnar áttu sér stað og þær virðast hafa valdið litlum skemmdum.
Úkraínumenn þvertaka fyrir að hafa gert árásina.