Enski boltinn

Leeds í­hugar að skipta aftur um stjóra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verður Javi Gracia rekinn?
Verður Javi Gracia rekinn? EPA-EFE/Daniel Hambury

Það hefur hvorki gengið né rekið hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Leeds United á leiktíðinni. Liðið mátti þola stórt tap gegn nýliðum Bournemouth um liðna helgi og nú íhuga forráðamenn félagsins að reka Javi Gracia. Sá hefur aðeins verið í starfi í 10 vikur.

Ekki er ýkja langt síðan forráðamenn Leeds ákváðu að sparka Jesse Marsch, arftaka Marcelo Bielsa. Hinn bandaríski Marsch átti ekki alveg upp á pallborðið hjá stuðningsfólki liðsins en fékk þó leyfi til að sækja hvern Bandaríkjamanninn á fætur öðrum.

Hann var á endanum látinn fara í upphafi febrúar og þann 21. sama mánaðar var Gracia ráðinn þjálfari liðsins. Sá þekkir ágætlega til ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa stýrt Watford frá 2018 til 2019.

Árangur Leeds í apríl hefur hins vegar verið mikið áhyggjuefni og þá helst hversu mörg mörk liðið fær á sig. Arsenal og Bournemouth skoruðu fjögur, Crystal Palace skoraði fimm og Liverpool skoraði sex.

Það virðist sem tapið gegn Bournemouth hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Hvort einhver sé tilbúinn að taka við Leeds í dag er svo annað mál en síðustu fjórir leikir tímabilsins eru gegn Manchester City, Newcastle United, West Ham United og Tottenham Hotspur.

Leeds United er í 16. sæti, stigi fyrir ofan fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×