Enski boltinn

Eyddi þrettán mínútum í marks­pyrnur gegn Arsenal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þrívegis ræddi dómarinn við Bazunu í leiknum sem um er ræðir en aldrei fékk hann spjald.
Þrívegis ræddi dómarinn við Bazunu í leiknum sem um er ræðir en aldrei fékk hann spjald. Julian Finney/Getty Images

Gavin Bazunu, markvörður Southampton eyddi þrettán mínútum í að taka markspyrnur i 3-3 jafnteflinu gegn Arsenal þegar liðin mættust á dögunum. Þá tekur Nick Pope, markvörður Newcastle United, að meðaltali 37 sekúndur í hverja markspyrnu.

Þetta kemur fram í nýlegri samantekt Opta Analyst þar sem farið er yfir hversu mikið boltinn er að meðaltali í leik í leikjum ensku úrvalsdeildarinnar. Farið yfir alla leiki tímabilsins til þessa og hversu mikinn tíma markverðir taka í markspyrnur, hversu mikinn tíma lið taka í föst leikatriði og þar fram eftir götunum.

Í skýrslunni sem Opta Analyst gaf frá sér nýverið kom fram að þrívegis hafa markverðir eytt meira en tíu mínútum í markspyrnur. Bazunu eyddi að meðaltali 43,7 sekúndum í hverja af sínum 18 markspyrnum gegn Arsenal. Alls tók hann 13 mínútur og 6 sekúndur af klukkunni í leik þar sem Southampton náði í ólíklegt stig.

Arsenal getur þó ekki kvartað þar sem Aaron Ramsdale gerði nákvæmlega það sama gegn Liverpool þegar Skytturnar heimsóttu Anfield. Þá tók Ramsdale raunar 57 sekúndur í hverja markspyrnu sína en alls tók hann 10 slíkar í leiknum.

Ramsdale varði nokkrum sinnum meistaralega gegn Liverpool. EPA-EFE/PETER POWELL

Einnig kemur fram í greininni að meðaltali er boltinn í leik í 54 mínútur og 46 sekúndur af þeim 90 mínútum – plús uppbótartíma – sem fótboltaleikur er. Aldrei hefur boltinn verið jafn lítið í leik síðan mælingar hófust tímabilið 2012-13.

Það var ekki að ástæðulausu að boðið var upp á einstaklega langan uppbótartíma á HM sem fram fór í Katar undir lok síðasta árs. Þar var leikurinn að meðaltali 110 mínútur og 23 sekúndur. Þá var boltinn þremur mínútum og 18 sekúndum lengur í leik á HM en í ensku úrvalsdeildinni.

Hvort enska úrvalsdeildin fari sömu leið og FIFA eða finni aðra leið til að koma í veg fyrir tímaeyðslu kemur eflaust í ljós næsta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×