Enski boltinn

Fyrr­verandi leik­maður Man United gjald­þrota

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wes Brown er gjaldþrota.
Wes Brown er gjaldþrota. Nordic Photos/AFP

Wes Brown, fyrrverandi varnarmaður Manchester United og enska landsliðsins, hefur lýst yfir gjaldþroti. Hann lagði skóna á hilluna árið 2018 eftir að hafa spilað með Kerala Blasters á Indlandi.

Það er enska götublaðið Daily Mirror sem greinir frá. Þar segir að hinn 43 ára gamli Brown hafi lýst yfir gjaldþroti þann 12. apríl síðastliðinn. Hann lék með Man United frá 1996 til 2011 og vann fjölda titla með liðinu.

Hann var yngsti meðlimur hópsins sem vann Meistaradeild Evrópu á eftirminnilegan hátt árið 1999 og var svo í byrjunarliðinu þegar Man United vann Meistaradeildina aftur 2008. Lagði hann upp mark Cristiano Ronaldo í leiknum.

Hann færði sig yfir til Sunderland árið 2011 og spilaði svo eitt tímabil með Blackburn Rovers áður en hann hélt til Indlands.

Brown hefur átt erfitt uppdráttar í einkalífinu undanfarið en hann skildi við eiginkonu sína, Leanne Brown, á síðasta ári. Þau giftu sig árið 2009 og eiga saman þrjár dætur.

Brown spilaði á sínum tíma 23 landsleiki fyrir Englands hönd en Sir Alex Ferguson, fyrrverandi þjálfari Manchester United, sagði að hann hefði orðið einn besti varnarmaður Englands ef ekki hefði verið fyrir meiðsli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×