Enski boltinn

„Í síðustu viku voru níu varnar­menn klárir, nú eru þeir fjórir“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lærisveinar Ten Hag spiluðu vel um helgina.
Lærisveinar Ten Hag spiluðu vel um helgina. EPA-EFE/Peter Powell

Erik Ten Hag, þjálfari Manchester United, var sáttur með 2-0 sigur sinna manna á Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag. Hann var spurður út í meiðslakrísu liðsins en Rauðu djöflarnir voru án sjö leikmanna í Skírisskógi.

Man United lék einkar vel gegn nýliðunum sem hafa verið nokkuð öflugur á heimavelli. Ten Hag þurfti að breyta töluvert frá svekkjandi 2-2 jafntefli Man Utd og Sevilla á fimmtudaginn var.

„Góður sigur. Virkilega einbeitt frammistaða frá upphafi til enda,“ sagði Ten Hag um sigur sunnudagsins.

Miðverðirnir Raphaël Varane og Lisandro Martínez byrjuðu báðir gegn Sevilla en fóru meiddir af velli. Vitað er að Martínez verði ekki meira með á leiktíðinni, mögulega er sömu sögu að segja af Varane. 

Þá eru vinstri bakverðirnir Luke Shaw og Tyrell Malacia meiddir. Ten Hag var samt sáttur með vörnina: 

„Mjög góð, og örugg, frammistaða frá öllum á vellinum. Miðverðirnir tengdu vel saman, bakverðirnir voru frábærir bæði með og án bolta. Harry Maguire og Victor Lindelöf voru mjög öflugir.“

Marcus Rashford var einnig fjarverandi vegna meiðsla ásamt ungstirninu Alejandro Garnacho. Þá meiddist Marcel Sabitzer í upphitun.

„Sabitzer fann fyrir einhverju í upphituninni. Við ákváðum að taka ekki áhættuna, við finnum út á morgun [í dag] hvað var að angra hann. Þegar þú ert með [Christian] Eriksen á bekknum þá er það ekki ókostur að setja hann inn á.“

Að endingu var Ten Hag spurður um meiðslin sem herja á Man United þessa dagana.

„Í síðustu viku voru níu varnarmenn klárir, nú eru þeir fjórir. Við þurfum á öllum okkar leikmönnum að halda. Við erum enn í þremur keppnum og þurfum alla leikmennina okkar til að mynda topplið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×