„Orkan stendur upp úr í kvöld. Leikurinn vannst ekki á taktík heldur orkustigi við vildum setja pressu á þá. Í síðasta leik leyfðum við þeim að líða allt of vel þar sem þeir fengu að drippla með boltann og fengu að setja upp sóknir á meðan við stóðum eins og keilur. Við vildum vera virkir með hendurnar uppi og tilbúnir að hjálpa,“ sagði Emil Karel Einarsson í viðtali eftir leik.
Emil var ánægður með hvernig Þórsarar héldu sínu striki og gáfu Haukum aldrei tækifæri til þess að koma til baka.
„Við gerðum vel í að einbeita okkur að því sem við getum stjórnað í þessum leik. Í fyrstu þremur leikjunum vorum við að einbeita okkur mikið að dómaranum.“
„Það gerir lítið fyrir okkur að vera að tuða í þeim. Dómararnir eru að gera vinnuna sína og þetta er erfitt einvígi að dæma og við þurfum að einbeita okkur að því sem við getum stjórnað ekki því sem dómararnir gera. Það var áherslubreyting sem við viljum halda áfram með.“
Einvígið er jafnt 2-2 og á mánudaginn verður oddaleikur í Ólafssal upp á hvaða lið fer áfram í undanúrslitin.
„Maður nýtur þess að spila í úrslitakeppninni. Allt tímabilið er maður að bíða eftir svona leikjum,“ sagði Emil Karel Einarsson spenntur fyrir oddaleiknum á mánudaginn.