Enski boltinn

Hefur átta leiki til að bæta marka­metið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Styttist í að markametið falli.
Styttist í að markametið falli. Joe Prior/Getty Images

Erling Braut Håland skoraði tvö mörk í 3-1 sigri Manchester City á Leicester City í ensku úrvalsdeildinni á laugardag. Hann hefur nú jafnað markamet deildarinnar í 20 liða deild þegar enn eru átta umferðir eftir.

Håland skoraði tvívegis með stuttu millibili í fyrri hálfleik áður en hann var tekinn af velli í hálfleik. Pep Guardiola með hugann við síðari viðureignina gegn Bayern München í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vikunni.

Norðmaðurinn hefur eflaust ekki verið sáttur með ákvörðun þjálfara síns þar sem hann hefði viljað ná þrennunni og um leið setja met yfir flest mörk skoruð á einni leiktíð ensku úrvalsdeildarinnar sem inniheldur 20 lið.

Þegar átta umferðir eru eftir hefur Håland skorað 32 mörk. Hann hefur því átta leiki til viðbótar til að bæta markametið í 20 liða deild sem og að hirða markamet úrvalsdeildarinnar frá upphafi en Andy Cole og Alan Shearer skoruðu á sínum tíma 34 mörk þegar deildin innihélt 22 lið.

Alls hefur Håland skorað 47 mörk í 40 leikjum í öllum keppnum ásamt því að gefa 6 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×