Fótbolti

Sonur Hareides óskar honum og íslenska landsliðinu góðs gengis á leiðinni á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hareide-feðgarnir á síðustu jólum.
Hareide-feðgarnir á síðustu jólum.

Sonur Åges Hareide virðist vera spenntur fyrir því að fylgjast með næstu skrefum hjá íslenska karlalandsliðinu, nú þegar faðir hans hefur verið ráðinn þjálfari þess.

Í dag tilkynnti KSÍ að Hareide yrði næsti þjálfari karlalandsliðsins. Hann tekur við því af Arnari Þór Viðarssyni sem var sagt upp störfum í lok síðasta mánaðar.

„Pabbi tekur við stjórn Íslenska landsliðsins Spennandi tímar!“ skrifaði Bendik Hareide, sonur nýja landsliðsþjálfarans á Twitter í dag. „Óska honum og landsliðinu góðs gengis á leiðinni til EM!“

Fyrsta verkefni hins 69 ára Hareides verður að koma íslenska landsliðinu á EM 2024. Ísland er með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina í undankeppninni. Fyrstu leikir Íslands undir stjórn Hareides eru gegn Slóvakíu og Portúgal 17. og 20. júní. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

Jan Åge Fjørtoft, fyrrverandi fótboltamaður og núverandi fjölmiðlamaður sem er meðal annars vel tengdur Haaland-fjölskyldunni, deildi tísti Bendiks Hareide. Hann sagðist hafa þekkt Hareide lengi og hann væri algjör víkingur frá ströndinnji.

Hareide er einn reyndasti og sigursælasti þjálfari Norðurlandanna. Hann hefur unnið titla í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og stýrt norska og danska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×