Enski boltinn

Sjáðu tvennu Jóhanns Berg í toppslagnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jóhann Berg skoraði tvö.
Jóhann Berg skoraði tvö. Vísir/Getty

Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson var hetja Burnley sem vann 2-0 sigur á Sheffield United í toppslag ensku B-deildarinnar í fótbolta í gær. Liðið færist nær titlinum.

Jóhann Berg byrjaði á varamannabekknum hjá Burnley í gær en þegar staðan var markalaus í hálfleik þrátt fyrir að Burnley hafi leikið manni fleiri frá 17. mínútu ákvað Vincent Kompany, þjálfari liðsins, að breytinga væri þörf.

Jóhann kom inn á í hálfleik og var ekki lengi að láta til sín taka. Hann kom Burnley í forystu á 60. mínútu og innsiglaði 2-0 sigur liðsins tíu mínútum síðar.

Hann skoraði þar með fyrstu mörk sín á Turf Moor, heimavelli Brunley, frá því í febrúar 2021.

„Mér líður mjög vel með að hjálpa liðinu. Það voru auðvitað vonbrigði að byrja á bekknum en það er svona þegar við spiluðum fyrir tveimur dögum. Fyrir gamlan líkama eins og minn þarf stundum hvíld. Að fá að koma inn í hálfleik og geta hjálpað liðinu er augljóslega frábært,“ sagði Jóhann Berg í viðtali við miðla Burnley eftir leik.

Burnley er með 90 stig á toppi deildarinnar og hefur þegar tryggt úrvalsdeildarsæti að ári. Andstæðingar gærdagsins, Sheffield United, er í öðru sæti með 76 stig, 14 stigum meira, þegar sex umferðir eru eftir og því 18 stig í pottinum.

Að ofan má sjá allt það helsta úr leik gærdagsins, þar á meðal mörkin tvö frá Jóhanni. Þá má sjá viðtal við Jóhann eftir leik í neðri spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×