Erlent

Frakkar og Þjóð­verjar virðast hafa misst á­hugann á Bret­landi í kjöl­far Brexit

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kannanir sýna að Bretland hefur fallið í áliti hjá Frökkum og Þjóðverjum.
Kannanir sýna að Bretland hefur fallið í áliti hjá Frökkum og Þjóðverjum.

Vísbendingar eru uppi um að Frakkar og Þjóðverjar séu að missa áhugann á að ferðast til Bretlands í kjölfar Brexit. Ástæðurnar eru meðal annars kröfur um framvísun vegabréfs en minna en helmingur íbúa Frakklands og Þýskalands eiga gilt vegabréf.

Áður þurftu ferðamenn frá löndunum tveimur aðeins að framvísa skilríkjum við koma til Bretlands en nú er krafist framvísunar vegabréf, sem hefur meðal annars orðið til þess að kennarar velja frekar að fara með skólahópa til Írlands eða Möltu þegar einhver börn í bekknum eiga ekki vegabréf.

Rannsókn sem efnt var til í fyrra benti til þess að skólabörnum og nemum sem heimsækja Bretland hefur fækkað um 83 prósent, sem Tourism Alliance segir hafa dregið úr tekjum sem nemur 875 milljónum punda og fækkað störfum um 14.500.

Einstaklingar í ferðaþjónustu á Bretlandseyjum segja Bandaríkjamenn streyma að en að Frakkarnir og Þjóðverjarnir hafi ekki skilað sér aftur eftir Covid.

Fjöldi farartækja sem fluttur var með Le Shuttle um Ermasundsgöngin fyrstu tvo mánuði ársins 2023 var 251.175, samanborið við 314.497 árið 2019. Þá voru 155 þúsund komur skráðar hjá Brittany Ferries árið 2022, samanborið við 338 þúsund árið 2019.

Almennt virðist álit Frakka og Þjóðverja á gestrisni Breta hafa farið versnandi en árið 2016 var Bretland í 7. sæti hjá Þjóðverjum yfir álitleg lönd til að sækja heim og í 9. sæti hjá Frökkum. Nú er það í 16. sæti hjá Þjóðverjum og 14. sæti hjá Frökkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×