Frá þessu greinir BBC í nokkuð athyglisverðri frétt, þar sem talað er um að unnið sé að undirbúningi leiðangurs til að stöðva veiðiþjófnað við Ísland.
Þá er haft eftir Watson, 72 ára, að um sé að ræða fjögurra mánaða aðgerð þar sem þess verður freistað að koma í veg fyrir glæpsamlegar veiðar en ekki standa í vegi lögmætra fyrirtækja.
Ekki liggur fyrir um hvað Watson er að tala þar sem einu hvalveiðarnar sem stundaðar eru við Ísland fara fram í samræmi við íslenska löggjöf.
Unnið er að viðgerðum á John Paul Dejoria í hafnarborginni Hull. Til stendur að leggja úr höfn og sigla hingað til lands snemma í apríl, þar sem Watson segir áhöfnina munu gera „allt mögulegt“ til að koma í veg fyrir ólöglegar veiðar.
Segir hann meðal annars standa til að þvælast fyrir hvalveiðiskipum og þá er haft eftir leiðangursstjóranum Locky Maclean að áhöfn skipsins muni ganga svo langt að leggja sig í hættu til að koma í veg fyrir að skotið sé á hvalina.
Markmiðið sé að binda enda á hvalveiðar Íslendinga.
Haft er eftir Maclean að Ísland hafi sagt sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1992 en ekki minnst á það að Ísland gekk aftur í ráðið árið 2002.