Athyglisvert byrjunarlið blasti við í Bosníu á fimmtudagskvöld þar sem Arnór Ingvi Traustason var djúpur miðjumaður með tvo aðra sóknarþenkjandi leikmenn sér við hlið á miðsvæðinu í Hákoni Arnari Haraldssyni og Jóhanni Berg Guðmundssyni. Það hentaði illa í Bosníu en er miðja sem maður hefði frekar séð fyrir sér gegn lakari andstæðingi, líkt og Liechtenstein.
Einnig var áhugavert að sjá Guðlaug Victor Pálsson í bakverði, fremur en miðsvæðis, þar sem virtist vanta forystu í öftustu línu á fimmtudag. Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, snýr hins vegar aftur úr leikbanni á morgun og líklegt þykir að hann taki sér stöðu í miðverðinum.
Þá verður að teljast líklegt að Guðlaugur Victor byrji djúpur á miðjunni á morgun og Alfons Sampsted verði í hægri bakverði þar sem hann er öflugri sóknarlega en Guðlaugur í þeirri stöðu.
Arnór Ingvi og Daníel Leó Grétarsson muni því víkja fyrir þeim Aroni og Alfons á morgun og Guðlaugur færist úr bakverði yfir á miðjuna. Liðið verði að öðru leyti óbreytt.
Líklegt byrjunarlið Íslands
Markvörður: Rúnar Alex Rúnarsson
Hægri bakvörður: Alfons Sampsted
Miðvörður: Aron Einar Gunnarsson
Miðvörður: Hörður Björgvin Magnússon
Vinstri bakvörður: Davíð Kristján Ólafsson
Miðjumaður: Guðlaugur Victor Pálsson
Miðjumaður: Jóhann Berg Guðmundsson
Miðjumaður: Hákon Arnar Haraldsson
Hægri kantmaður: Arnór Sigurðsson
Vinstri kantmaður: Jón Dagur Þorsteinsson
Framherji: Alfreð Finnbogason
Ísland mætir Liechenstein klukkan 16:00 á morgun. Leiknum verður lýst beint á Vísi og verður landsliðinu fylgt vel eftir fram að leik.