Slökkviliðið fékk fyrst tilkynningu um fyrri sprenginguna og viðbragðsaðilar voru á leiðinni á vettvang þegar að seinni sprengingin varð. Gaskútarnir sprungu þegar kviknaði í þakpappa sem hitaði kútana ótæpilega. Enginn var á svæðinu og enginn slasaðist. Sprengingarnar heyrðust um allt höfuðborgarsvæðið.
Guðmundur Guðjónsson, varðstjóri hjá hjá slökkviliðinu segir að mikil hætta hafi skapast.
„Sem betur er slasaðist enginn en það mátti ekki miklu muna. Bæði okkar starfsfólk og fólk sem var á vettvangi. Það sést á þeim myndum sem hafa verið birtar víða að fólk var í virkilegri hættu þarna.“
Þessi aðferð, að leggja tjörupappa til þess að þétta þök sé vel þekkt.
„Þetta eru hættuleg efni sem koma þarna saman. En þetta er mjög algeng aðferð í nýbyggingum að þétta þök með tjörupappa. Þá þarf að hita hann upp svo hann leggist á þökin og vinnueftirlitið hefur gefið út mjög góðar leiðbeiningar til fyrirtækja sem standa í þessu.“
Málið sé núna á borði lögreglu.
„Lögreglan er að rannsaka upptök eldsins en við vitum ekki hvernig þetta fór af stað.“