Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Höttur 85-98 | Höttur heldur sæti sínu í deildinni og felldu ÍR með sigri sínum

Árni Jóhannsson skrifar
Stjarnan_Breidablik (6)
VÍSIR/BÁRA

Höttur frá Egilsstöðum mun leika í Subwaydeild karla í körfubolta á næsta tímabili. Það staðfestist í kvöld með sigri þeirra á Breiðlik í Smáranum í kvöld. Það var stigasprenging í fjórða leikhluta sem sigldi sigrinum heim fyrir Hött en leikar enduðu 85-98.

Breiðablik byrjaði mikið betur í leiknum í kvöld, komust ítrekað inn í teig Hattar til að skora á meðan gestirnir gátu ekki keypt sér körfu. Blikar komust í byrjun á 8-0 sprett áður en Höttur komst á blað en eftir það jafnaðist leikurinn og Höttur komst yfir 12-13 þegar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Þá komust heimamenn á annan sprett og lokuðu fyrsta fjórðung í stöðunni 22-15.

Spretturinn hélt áfram hjá Blikum og endaði í 15-0 og staðan orðin 27-15 þegar um átta mínútur voru til hálfleiks. Aftur komst jafnvægi á leikinn en Höttur gat hvorki sótt nógu vel til að draga heimamenn nær sér eða varist í sama tilgangi. Everage Lee Richardson fór mikinn og endaði fyrri hálfleik með 13 stig en ítrekað komst hann framhjá manninum sínum til að komast nánast óáreittur að körfunni. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 46-36 og hittni Hattar mjög slöpp eða 38%.

Það átti heldur betur eftir að snúast við í seinni hálfleik. Blikar náðu að halda andstæðingi sínum í skefjum í um fimm mínútur af þriðja leikhluta en þá komst Höttur á sprett. Tim Guers leiddi sína menn í rétta átt og þegar um þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta þá komst Höttur yfir 55-56. Varnarleikur liðsins hafði harðnað, sóknarleikurinn batnað og Blikar fóru að taka ótímabær og illa ígrunduð skot eins og þeir eru þekktir fyrir. Þeir tóku þó ögn við sér og skiptust liðin nokkrum sinnum á forystu þangað til þriðji leikhluti var liðinn. Bryan Alberts setti niður flautukörfu og kom Hetti yfir 65-66 en aðalmaðurinn í liði Hattar, Tim Guers skoraði 16 stig í þriðja leikhluta.

Fjórði leikhluti hófst og átti maður allt eins von á því að þetta yrði járn í járn allan tímann. Staðan var 69-69 þegar um sjö mínútur voru eftir af leiknum. Þá fór Höttur í gang svo um munaði. Hver þristurinn flaug í gegnum gjörðina, úr mörgum áttu, frá mörgum leikmönnu og gerði það að verkum að Blikar voru sem rotaðir. Á tveggja mínútna kafla settu gestirnir niður sex þriggja stiga skot án þess að klikka og bættu við einum tvist í 5-20 kafla sem gerði það að verkum að þeir leiddu 74-89 þegar Blikar tóku leikhlé með 5:06 á klukkunni. Eitthvað þurfti að gera. 

Blikar reyndu eins og þeir gátu að minnka muninn en Höttur gerði vel í að spila langar sóknir og verjast vel. Heimamenn komust ekki nær en 10 stigum og í lokin þá sigldi Höttur frábærum sigri í höfn og að launum halda þeir sæti sínu í deildinni. Leikurinn endaði 85-98 og Héraðsbúar geta andað léttar enda mun liðið þeirra spila í Subway deildinni að ári.

Afhverju vann Höttur?

Þeir náðu vopnum sínum í varnarleiknum í seinni hálfleik. Það gerði það að verkum að liðið fékk sjálfstraust í sóknarleik sínum. Fyrst jöfnuðu þeir leikinn og skoruðu síðan 20 stig á tveimur mínútum gegn fimm til að loka leiknum. Höttur vann seinni hálfleikinn 39-62 sem eru ótrúlegar tölur.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur gestanna gekk illa í fyrri hálfleik sem og varnarleikur þeirra. Í seinni hálfleik gekk sóknarleikur heimamanna illa sem og varnarleikur þeirra. Leikur Blika gekk bara verr í seinni en leikur Hattar í fyrri sem gerði það að verkum að Höttur náði að landa sigrinum.

Bestir á vellinum?

Fyrir heimamennVar Everage Lee Richardson stigahæstur en kappinn skoraði 23 stig og átti fjórar stoðsendingar. 

Hjá Hetti var það Timothy Guers sem átti stórleik, sérstaklega í seinni hálfleik en hann endaði með 29 stig, átta fráköst og sex stoðsendingar. Það, meðal annars, skilaði honum 30 framlagsstigum og vann Höttur hans mínútur með 30 stigum. 

Tölfræði sem vakti athygli

Helst er það hvernig hittni gestanna umturnaðist í seinni hálfleik. Í hálfleik hafði Höttur hitt úr 38% skota sinna en endaði leikinn með 51% hittni. Þeir settu niður 11 þriggja stiga skot í seinni hálfleik en höfðu einungis hitt úr fimm í þeim fyrri. Þá var umtalsverður munur á framlagi varamanna hjá liðunum. Blikar fengu 13 stig frá sínum bekk en Höttur 32.

Hvað næst?

Það er ein umferð eftir en Höttur tekur á móti föllnum ÍR og geta með sigri, og hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum, tryggt sér sæti í úrslitakeppninni í fyrsta sinn í sögunni. Blikar eru væntanlega á leiðinni út úr henni en þeir keppa við Stjörnunar í síðustu umfeðrinni. Blikar geta hjálpað Hetti ef þeir vinna Stjörnuna.

Pétur: Stundum er þetta svona

Þjálfari Beiðabliks, Pétur Ingvarsson, var jafn undrandi og blaðamaður á því hvernig leikurinn endaði fyrir hans menn.

„Við höfum örugglega háfltíma til að kæra en við gerum það ekki“, sagði Pétur og brosti út í annað áður en hann hélt áfram.

„Við vorum að horfa á sama hlutinn hérna í kvöld. Ég þarf ekki að útskýra hvað gerist á vellinum en þú átt eftir að gera í frétt þinni.“

Pétur var þá spurður að því hvað hann ætlaði að segja við sína menn eftir leik.

„Bara að við erum fegnir því að hann sé búinn.“

Pétur var þá inntur eftir því hvort hann væri ánægður með sína menn í þessa þrjá leikhluta sem hans menn spiluðu vel.

„Já. Menn lögðu sig fram og ýmislegt og svo komast þeir á sprettin sem við náðum ekki að stoppa. Stundum er þetta svona.“

Er Pétur þá kannski bara feginn því að komast í frí?

„Á þessu tímabili hefur liðið passað illa saman. Passaði ekki nógu vel saman þegar á reyndi og það er erfitt þegar menn byrja að tapa. Þá geta hlutirnir orðið erfiðir og við náðum ekki að tækla það nógu vel.“

Timothy Guers: Það var allavega frábært að vera hluti af þessu

Besti maður vallarins Timothy Guers var að vonum ánægður með leik sinna manna í kvöld en hann skoraði 29 stig og mörg þeirra mjög mikilvæg í sigrinum sem tryggði veru Hattar í Úrvalsdeildinni. Hann var spurður hvort að takmarkinu væri náð.

„Já algjörlega. Við höfum lagt mjög hart að okkur í allan vetur og erum mjög ánægðir með að vera í þeirri stöðu á þessum tímapunkti að eiga möguleika á að spila svona leik og sjá hvað það gefur okkur.“

Eins og hefur komið fram duttu Hattar menn í rosalegt stuð í fjórða leikhluta. Guers var spurður að því hvort það væri hægt að útskýra svona stigasprengju með einhverjum hætti.

„Ég veit ekki hvort ég hafi nokkurn tímann séð eitthvað þessu líkt. Það var allavega frábært að vera hluti af þessu og minnstu ekki á tímasetninguna. Þetta hefði ekki getað komið á betri tíma. Við höfum verið í jöfnum leikjum í allan vetur og á þessum tímapunkti er fjórði leikhluti ekkert sem hræðir okkur. Við höfum tapað nokkrum jöfnum leikjum og unnið þá líka. Það var mjög gott að ná að stíga á bensíngjöfina til að auka muninn og geta klárað leikinn.“

Guers var spurður að því hvað hafi breyst í hálfleik. Tók hann í svipaðan streng og þjálfari sinn og talaði um varnarleik sinna manna.

„Við vissum að við þyrftum að gera betur varnarlega. Við vorum búnir að vera linir í fyrri hálfleik og fannst við eiga geta betur sem lið. Við náðum að berja okkur saman og setja einbeitinguna á réttan stað og sýndum hvað við höfum verið að tala um alla vikuna og sýndum hvað við getum sem lið.“

Einn leikur er eftir en þessi sigur hlýtur að gefa Hattar liðinu mikið sjálfstraust upp á það að tryggja sér farseðilinn í úrslitakeppnina.

„Sjálfstraust hefur aldrei verið vandamálið hjá þessu liði. Við höfum alltaf verið litla liðið og okkur sem hóp finnst það bara ágætt. Næsti leikur er stór. Vonandi eigum við tækifæri á því að komast í úrslitakeppnina en engu að síður erum við að taka söguleg skref fyrir Hött og það er mjög ánægjulegt að taka þátt í því.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira