Fótbolti

Griezmann fúll að vera ekki gerður að fyrirliða Frakklands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antoine Griezmann verður ekki næsti fyrirliði franska landsliðsins.
Antoine Griezmann verður ekki næsti fyrirliði franska landsliðsins. getty/Shaun Botterill

Antoine Griezmann íhugar framtíð sína með franska landsliðinu eftir að hann var ekki gerður að fyrirliða þess.

Hugo Lloris hefur verið fyrirliði franska landsliðsins undanfarin ár en lagði landsliðsskóna á hilluna eftir HM í Katar þar sem Frakkar enduðu í 2. sæti eftir tap fyrir Argentínumönnum í úrslitaleik.

Framundan hjá franska landsliðinu eru leikir gegn Hollandi og Írlandi og Kylian Mbappé verður fyrirliði í þeim. Líklegt er að Didier Deschamps geri Mbappé svo að fyrirliða Frakklands til frambúðar.

Þetta er afmælisbarn dagsins, Griezmann, ekki sáttur með. Samkvæmt Le Figaro er Atlético Madrid-maðurinn sár og svekktur og íhugar nú framtíð sína með franska landsliðinu.

Griezmann hefur varla misst úr leik með franska landsliðinu á undanförnum árum og varð heimsmeistari með því 2018. Hann hefur alls spilað 117 landsleiki og skorað 42 mörk.

Griezmann, sem er 32 ára í dag, skoraði fyrsta mark Atlético þegar liðið lagði Valencia að velli, 3-0, í spænsku úrvalsdeildinni á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×