Viðræður Rafiðnaðarsambandsins og VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna við Orkuveitu Reykjavíkur hafa staðið yfir að undanförnu þar sem þrýst hefur verið á að endurnýja samninga sem runnu út í nóvember. Í yfirlýsingu í vikunni var greindu VM og Rafiðnaðarsambandið frá því að viðræður hafi siglt í strand.
„Þessar viðræður hafa ekki gengið nægilega vel að okkar mati og það lýsir sér bara í því að við erum ekki komin með kjarasamning enn þá og staðan er ekki þannig að maður sjái einhverja lausn í sjónmáli,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins.
Mikil vonbrigði
Í grunninn vilji þau ná samningi sem sé í takt við þá sem hafa verið gerðir á almenna vinnumarkaðinum. Það hafi ekki tekist, sem sé áhyggjuefni. Viðræður við önnur orkufyrirtæki, svo sem Landsvirkjun, hafi sömuleiðis gengið hægt.
Um sé að ræða skammtímasamninga sem mikilvægt sé að klára sem fyrst til að geta hafið viðræður um langtímasamning.
„Meginmarkmið samningsaðila hefur verið það að hefja viðræður upp á nýtt og á meðan þetta er enn óleyst þá er það auðvitað að tefja fyrir allri slíkri vinnu. Þannig það eru auðvitað mikil vonbrigði,“ segir Kristján.
Möguleiki á verkföllum
Félagsfólk hefur verið boðað á fund klukkan ellefu á mánudag til þess að ræða næstu skref í viðræðunum við Orkuveituna en vonir eru bundnar við að fyrirtækið komi að samningsborðinu.
Óljóst er hvað þurfi til en aðspurður um hvort komið gæti til verkfallsaðgerða segist Kristján ekki vita hvað verður.
„Auðvitað er möguleiki að beita slíku en við þurfum bara að heyra það frá okkar fólki hvað það vill gera. En það er ljóst að núverandi staða mun að óbreyttu ekki ganga upp þannig það þarf eitthvað til að höggva á hnútinn,“ segir Kristján.