Innlent

Loka ný­fundnum helli við Jarð­böðin í Mý­vatns­sveit

Atli Ísleifsson skrifar
Jarðvinnuverktaki var þar að brjóta klöpp þegar þak hellisins gaf sig og stærðarinnar niðurfall birtist skyndilega.
Jarðvinnuverktaki var þar að brjóta klöpp þegar þak hellisins gaf sig og stærðarinnar niðurfall birtist skyndilega. Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að loka nýfundnum helli við Jarðböðin í Mývatnssveit í tvær vikur í ljósi fágætra og viðkvæmra jarðhitaútfellinga sem þar hafa fundist.

Ábending um hellinn barst á dögunum þegar unnið var að greftri grunnar fyrir nýbyggingar við Jarðböðin í Mývatnssveit. Jarðvinnuverktaki var þar að brjóta klöpp þegar þak hellisins gaf sig og stærðarinnar niðurfall birtist skyndilega.

Úr hellinum.Umhverfisstofnun

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að hraunhellar og virkar útfellingar af völdum jarðhita njóti verndunar samkvæmt 61. grein laga um náttúruvernd. Fram kemur að lokunin taki gildi á hádegi í dag og gildi í tvær vikur. Stefnt sé að því að endurskoða lokunina innan þess tíma.

„Á meðan lokunin er í gildi getur Umhverfisstofnun, í samráði við rekstraraðila Jarðbaðanna, veitt leyfi fyrir ferðum í hellinn sem tengjast frekari könnun hans og öðrum rannsóknum á honum, en öll önnur umferð verður óheimil. 

Umhverfisstofnun

Frá því að hellinn fannst hefur umferð um hann verið verulega takmörkuð með það að markmiði að valda sem minnstu raski á þeim jarðminjum sem þar eru að finna. Dreifing útfellinganna um hellinn er slík að erfitt er að ferðast um hann án þess að valda óafturkræfu raski á útfellingunum.

Starfsmenn verkfræðistofunnar EFLU hafa unnið að kortlagningu og skönnun hellisins, ásamt því að afmarka með böndum ákveðna leið um hellisgólfið,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×