Fótbolti

Hákon Arnar með stórleik í sigri FCK

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson skoraði og lagði upp fyrir FCK í dag.
Hákon Arnar Haraldsson skoraði og lagði upp fyrir FCK í dag. Vísir/Getty

FCK minnkaði forskot Nordsjælland á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar niður í eitt stig með 4-1 sigri gegn Horsens í dag. Hákon Arnar Haraldsson átti frábæran leik fyrir FCK.

Fyrir umferð helgarinnar í dönsku deildina var Nordsjælland með þriggja stiga forskot á FCK á toppi dönsku deildarinnar en eftir jafntefli Nordsjælland gegn Viborg í morgun átti FCK möguleika á að minnka forskotið á toppnum.

Það tókst þeim með glæsibrag. Þeir mættu liði Horsens á útivelli í dag og lentu reyndar undir í fyrri hálfleik þegar Anders Jacobsen skoraði fyrir heimaliðið.

Staðan í hálfleik var 1-0 en á sex mínútna kafla í síðari hálfleik skoraði FCK þrjú mörk. Fyrst skoraði Denis Vavro og Hákon Aranar Haraldsson bætti við öðru marki fjórum mínútum síðar. Strax tveimur mínútum síðar lagði Hákon Arnar síðan upp fyrir Jordan Larsson og staðan skyndilega orðin 3-1 FCK í vil.

Hákon Arnar var tekinn af velli á 73. mínútu en þrátt fyrir það náði FCK að bæta fjórða markinu í uppbótartíma og þar var að verki Elias Jelert. Lokatölur 4-1 í Horsens.

Ísak Bergmann Jóhannesson sat allan tímann á varamannabekk FCK í dag.

Að lokinni tuttugu og einni umferð er FCK í öðru sæti deildarinnar með 39 stig, einu stigi á eftir toppliði Nordsjælland. Viborg er í þriðja sætinu með 37 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×