Handbolti

Hefur áhuga á að fá Þorstein Leó til Svíþjóðar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur vakið athygli Kristjáns Andréssonar.
Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur vakið athygli Kristjáns Andréssonar. vísir/diego

Kristján Andrésson, íþróttastjóri Eskilstuna Guif, fylgist vel með Olís-deildinni og hefur augastað á leikmanni Aftureldingar.

Kristján var til viðtals í Handkastinu í gær. Þar var hann meðal annars spurður hvort hann hefði áhuga á að taka við íslenska landsliðinu og svaraði hann því játandi.

Arnar Daði Arnarsson, þáttastjórnandi Handkastsins, spurði Kristján hvort hann horfði til Íslands þegar kæmi að því að styrkja lið Eskilstuna Guif.

„Ég væri gjarnan til í að hafa fjárráð til að sækja dýran Íslending. Einar Baldvin [Baldvinsson] virðist ekki vera dýr en virðist fá mjög góðan pening í Gróttu,“ sagði Kristján í léttum dúr um markvörðinn knáa sem Arnar Daði fékk á Seltjarnarnesið á sínum tíma. Svo nefndi Kristján leikmann úr Olís-deildinni sem hann hefði áhuga á að fá.

„Þorstein Leó [Gunnarsson] myndi ég gjarnan vilja fá. Það er leikmaður sem gæti verið mjög mikilvægur fyrir íslenskt landslið í framtíðinni.“

Þorsteinn, sem er tvítugur, er á sínu þriðja tímabili með Aftureldingu. Hann er þriðji markahæsti leikmaður liðsins í Olís-deildinni með 79 mörk.

Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan. Viðtalið við Kristján hefst eftir um átta mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×