„Þetta er rannsóknarverkefni þar sem við erum að skoða sjónræna skynjun, hljóð og hreyfingar í tengslum við sensory upplifun og hugleiðslu,“ segir Katrín Gunnarsdóttir um Soft Shell í samtali við blaðamann.

Framkalla hugleiðsluástand og leika við skilningarvitin
Katrín og Eva Signý koma úr ólíkum listrænum bakgrunnum en Katrín er lærður dansari og kóreógrafer, hefur samið á annan tug dansverka og tekið þátt í fjölmörgum verkefnum hérlendis sem og víða um heiminn. Eva Signý er lærður leikmynda- og búningahönnuður og hefur hannað fyrir fjöldann allan af fjölbreyttum verkum.
Í fréttatilkynningu segir meðal annars:
„Soft Shell er verk í vinnslu sem skoðar hvernig sjónræn skynjun, hljóð og hreyfingar geta framkallað hugleiðsluástand og leikið við skilningarvitin.“

Manngerð náttúra
Katrín og Eva Signý sækja innblásturinn meðal annars í fagurfræði og inntak sjónrænna ASMR myndbanda, til að skoða í samhengi lifandi flutnings. Ásamt því gera þær tilraunir með áferðir og eiginlega efnis þegar það mætir líkama.
„Dansararnir Saga Kjerulf Sigurðardóttir og Ásgeir Helgi Magnússon koma að leika sér í þessari manngerðu náttúru sem við erum að búa til hér í Ásmundarsal,“segir Katrín.
Í fréttatilkynningu segir einnig að á vinnustofunni verði nánar skoðað samband þessa tveggja dansara við innsetningu og búninga úr svampteningum, plastefni og textíl, samband þeirra við hvort annað og við áhorfendur.

Skemmtileg tilraunamennska
„Við höfum ekki gert það áður að opna þetta fyrir áhorfendum. Þetta er nýtt samhengi fyrir okkur, við erum vanar að vinna saman í leikhúsinu en hér fáum við tækifæri til að skoða hlutina á öðruvísi hátt, sem er skemmtileg tilraunamennska fyrir okkur,“ segir Katrín.

Síðustu ár hefur Katrín unnið að því að byggja upp hreyfitungumál og myndmál þar sem mýkt, hlustun, síbreytileg hreyfing og samruni líkama við umhverfi sitt leika lykilhlutverk.
Í samstarfi sínu við Katrínu skoðar Eva Signý hvernig þróa megi hugmyndir frá einu sviðsverki til annars og færa dansinn úr hefðbundnu rými leikhússins og inn í samhengi myndlistar.
Afrakstur af vinnustofunni verður sem áður segir sýndur á morgun, fimmtudaginn 2. mars, klukkan 18:00. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.