Messi var valinn besti leikmaður heims 2022 af FIFA. Verðlaunaafhendingin fór fram í París í gær. Kylian Mbappé varð í 2. sæti og Benzema í því þriðja. Þjálfarar, fyrirliðar og blaðamenn frá öllum löndum taka þátt í kjörinu.
Alaba var með Messi í efsta sæti á sínum kjörseðli en ekki Benzema sem hann leikur með hjá Real Madrid. Alaba og Benzema urðu Spánar- og Evrópumeistarar með Real Madrid á síðasta tímabili.
Nokkrir óvandaðir stuðningsmenn Real Madrid voru ekki sáttir við þetta val Alabas og beittu hann kynþáttaníði á samfélagsmiðlum og óskuðu eftir því að hann færi frá félaginu.
Alaba fann sig knúinn til að greina frá því að ákvörðunin að hafa Messi í efsta sæti á sínum kjörseðli hefði verið tekin með félögum sínum í austurríska landsliðinu en ekki af honum einum. „Allir, sérstaklega Karim, vita hversu mikils ég met hann og frammistöðu hans,“ skrifaði Alaba á samfélagsmiðla.
David Alaba has issued this statement on his FIFA Best Awards voting after he received racial abuse for picking Messi ahead of Benzema. pic.twitter.com/eYG0miWo4D
— ESPN FC (@ESPNFC) February 28, 2023
Alaba kom til Real Madrid á frjálsri sölu frá Bayern München fyrir síðasta tímabil. Austurríkismaðurinn hefur leikið 75 leiki fyrir Madrídarliðið og skorað fimm mörk.