Erlent

Fyrstu Hlébarðarnir komnir til Úkraínu og Selenskí heitir sigri

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, við athöfn í Kænugarði í morgun.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, við athöfn í Kænugarði í morgun. AP/Forsetaembætti Úkraínu

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hét því í morgun að Úkraína myndi bera sigur úr býtum gegn Rússum. Þetta sagði hann í ávarpi er hann markaði það að ár er liðið frá því innrás Rússa hófst en Selenskí sagði þetta ár vera ár sársauka, sorgar, trúar og samstöðu. 

Mateusz Morawieck, forsætisráðherra Póllands, er staddur í Kænugarði en þar tilkynnti hann að fyrstu Leopard 2 skriðdrekarnir væru komnir til Úkraínu.

Þetta eru fyrstu vestrænu skriðdrekarnir sem berast til Úkraínu en verið er að þjálfa úkraínska hermenn í notkun þeirra í nokkrum ríkjum Evrópu.

Hlébarðarnir eru framleiddir í Þýskalandi og Úkraínumenn eiga von á umtalsverðu magni af þeim á komandi vikum og mánuðum. Bakhjarlar Úkraínu hafa þó verið sakaðir um hægagang varðandi skriðdrekasendingar síðan Þjóðverjar heimiluðu þær.

Pólverjar hafa heitið Úkraínumönnum minnst fjórtán skriðdreka en búið er að afhenda fjóra.

Þurftu að berjast fyrir hverjum degi

Selenskí sagði í ávarpi sínu í morgun að úkraínska þjóðin hefði sýnt sig og sannað á undanförnu ári.

„Við lifðum fyrsta dag stríðsins af. Við vissum ekki hvað annar dagurinn bæri í skauti sér en við skildum vel að við þyrftum að berast fyrir hverjum morgundegi og við börðumst,“ sagði Selenskí.

„Við erum orðin ein fjölskylda. Það eru engir ókunnugir meðal okkar,“ sagði Selenskí. „Úkraínumenn hafa skýlt Úkraínumönnum, opnað heimili sín og hjörtu gagnvart þeim sem hafa þurft að flýja þetta stríð.“

Hann sagði að úkraínska þjóðin hefði þurft að þola margt á undanförnu ári. Stórskotaliðsárásir, klasasprengjur, stýriflaugar, sjálfsprengidróna, rafmagnsleysi og kulda. Það hefði ekki dugað til að brjóta Úkraínumenn á bak aftur og að þeir myndu gera allt sem í valdi þeirra stæði til að sigra Rússa á þessu ári.

Hart barist í austri

Þó ár sé liðið frá því Rússar réðust inn í Úkraínu hafa úkraínskir hermenn og rússneskir barist í austurhluta landsins frá árinu 2014, þegar aðskilnaðarsinnar í Dónetsk og Lúhansk lýstu yfir sjálfstæði og með aðstoð Rússa börðust gegn úkraínska hernum.

Enn er barist í þessum tveimur héruðum, sem saman mynda Donbas svæðið svokallaða. Rússar hafa staðið í umfangsmiklum árásum þar en án mikils árangurs hingað til.

Sérfræðingar búast við því að Úkraínumenn ætli sér gagnárásir gegn Rússum þegar vorið nálgast og að þeir muni meðal annars notast við nýjar hersveitir sem notast munu við vestræna bryn- og skriðdreka.


Tengdar fréttir

Taka lít­ið mark á yf­ir­lýs­ing­u Rúss­a um inn­rás Úkra­ín­u­mann­a

Ríkisstjórn Moldóvu gefur lítið fyrir ásakanir Varnarmálaráðuneytis Rússlands um að Úkraínumenn ætli sér að gera innrás í Transnistríu, hérað í Moldóvu þar sem rússneski herinn er með viðveru. Rússar hafa haldið því fram að úkraínskir hermenn, klæddir eins og Rússar, ætli að sviðsetja einhvers konar ögrun sem Úkraínumenn ætli að nota sem átyllu til innrásar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×