Fyrsta Hringadróttinssögu-kvikmyndin kom út árið 2001 og fylgdu tvær aðrar myndir árin eftir. Myndirnar eru byggðar á samnefndum bókum eftir enska rithöfundinn J. R. R. Tolkien sem komu út árið 1954 og 1955.
Myndirnar vægast sagt slógu í gegn. Alls græddu þær þrjá milljarða dollara í miðasölum og hlutu samtals sautján Óskarsverðlaun. Síðasta myndin, Hilmir snýr heim, hlaut ellefu verðlaun á hátíðinni og deilir meti yfir flest verðlaun með Titanic og Ben-Hur.
Árin 2012 til 2014 voru síðan gerðar þrjár kvikmyndir um hobbitann Bilbo Baggins og áttu að gerast sextíu árum fyrir Hringadróttinssögu.
Í gær tilkynnti David Zaslav, forstjóri Warner Bros. Discovery að búið sé að semja um að framleiða fjölda kvikmynda sem byggðar eru á bókum Tolkien. Enginn kvikmyndagerðarmaður eða leikstjóri hefur verið orðaður við verkefnið en Peter Jackson, leikstjóri Hringadróttinssögu og Hobbita-kvikmyndanna, segist hafa fengið að fylgjast með samningsferlinu.
„Við hlökkum til að ræða frekar við þau og heyra þeirra sýn á hvernig verkefnið á að þróast,“ hefur Variety eftir Jackson og Fran Walsh og Philippa Boyens sem framleiddu myndirnar með Jackson.
Á síðasta ári framleiddi Amazon þáttaröðina Lord of the Rings: The Rings of Power, og gerist einnig í sama heimi og myndirnar sem byggðar eru á bókum Tolkien. Næsta þáttaröð er talin vera frumsýnd árið 2024.