Samkomulag tókst rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi milli deiluaðila um að verkföllum yrði frestað þá þegar til miðnættis á sunnudag og um grundvöll að viðræðum um kjarasamning. Ástráður Haraldsson settur ríkissáttasemjari ákvað jafnframt að viðræðurnar færu fram án ágangs frá fjölmiðlum á fundartíma.

„Mín tillaga verður sú að við reynum að vinna sæmilega þéttan dag í dag en þó ekki allt of langan. Þannig að við höfum kraft í að byrja á svipuðum tíma á morgun og vinna annan þéttan dag. Ásunnudaginn geri ég ráð fyrir að við reynum að halda áfram þar til tímann þrýtur.“
Hann voni að þessir þrír dagar dugi til.
Þjóðin fylgist auðvitað með og þótt þú sért að loka okkur úti munum við fá skýrslur í lok dags?
„Já, við höfum það bara þannig að ég legg til að við hittumst hérna um það leyti sem við hættum í dag. Þá gefum við einhvern smá rapport um hvernig gengur. Annars reynum við að láta hvor annan í friði,“ sagði Ástráður Haraldsson.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar mætti með litla ferðatösku á hjólum til sáttasemjara rétt fyrir klukkan tíu.
Ég sé þú kemur vel nestuð áfundinn?
„Já, hér er kaka fyrir samninganefndina. Aðallega er þetta tölvan mín og svoleiðis dót.“

Fórstu sem sagt heim í gærkvöldi og bakaðir fyrir samninganefndina?
„Nei, ég ætla ekki að ljúga því,“ sagði Sólveig Anna létt í bragði. En samningafólk hennar mætti lausnarmiðað og samningsfúst til þessara að minnsta kosti þriggja daga viðræðna. Vonandi næðist aðundirrita kjarasamning áður en þessi tími rynni út.
Sólveig Anna hefur sagt við sitt fólk og fjölmiðla að aðgerðir skili Eflingu árangri.
„Augljóslega. Það hefur náttúrlega ýmislegt gerst. Við í samninganefndinni höfum auðvitað sýnt mikla staðfestu og samstöðu. Svo lagði eflinigarfólk auðvitað niður störf. Með því ásamt nokkrum öðrum hlutum gerðist það að við komumst hingað inn til að eiga raunverulegar samningsviðræður sem er það sem Efling vildi alltaf fá að gera,“ sagði Sólveig Anna rétt fyrir upphaf fundar í morgun.
Eyjólfur Árni Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins sagðist vel stemmdur í upphafi þessarar samningalotu og samninganefnd hans ætlaði að setja allan kraft sem hún hefði í viðræðurnar. Það hjálpaði til að verkföllum hefði verið frestað.

„Þannig að nú getum við einhent okkur í þetta verkefni. Án þess að vera með hugann við annað á meðan. Við höfum alltaf einlægan vilja til að násamningi. Að öðru leyti ætla ég að láta sáttasemjara um að stýra þeirri för sem framundan er og ræða við hann um það.“
Þetta er friður til miðnættis á sunnudag. Ertu að vona að þið komist að minnsta kosti mjög vel áleiðis á þeim tíma?
„Að minnsta kosti ef við værum ekki að hittast í þessa þrjá daga, þá kæmumst við ekkert áleiðis,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson.