Fótbolti

Ensku konurnar eru enn taplausar síðan Sarina tók við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sarina Wiegman fagnar með ensku stelpunum sínum eftir sigurinn á Suður-Kóreu.
Sarina Wiegman fagnar með ensku stelpunum sínum eftir sigurinn á Suður-Kóreu. getty/Naomi Baker

Evrópumeistarar Englands héldu sigurgöngu sinni áfram í gær þegar liðið vann 4-0 sigur á Suður-Kóreu í æfingaleik.

Það þýðir að enska kvennalandsliðið hefur nú spilað 27 leiki í röð án þess að tapa eða alla leiki sína frá því að Sarina Wiegman tók við.

Wiegman var ráðin í ágúst 2020 og tók síðan við liðinu ári síðar.

Enska landsliðið vann tvo fyrstu leikina undir hennar stjórn 8-0 og 10-0 og hefur alls unnið 23 af 27 leikjum sínum á þessum eina og hálfa ári.

Enska landsliðið vann alla sex leiki sína á Evrópumótinu í fyrra og tryggði sér sinn fyrsta Evrópumeistaratitil með 2-1 sigri á Þýskalandi í úrslitaleik.

Wiegman var þar að gera landslið að Evrópumeisturum á öðrum EM í röð því hún gerði hollensku stelpurnar að Evrópumeisturum fimm árum fyrr.

Ensku konurnar hafa gert fjögur jafntefli í þessum 27 leikjum en þar var ekki um keppnisleiki að ræða. Liðið hefur unnið alla sextán keppnisleiki sína undir stjórn Wiegman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×