Þetta herma heimildir Vísis og munu samningaviðræður þess efnis vera langt komnar eða því sem næst í höfn.
Guðmundur Hólmar hefur verið leikmaður Selfoss frá því að hann sneri heim úr atvinnumennsku sumarið 2020. Hann skrifaði á þeim tíma undir samning til þriggja ára við Selfoss, sem var þáverandi Íslandsmeistari.
Akureyringurinn náði ekki að klára fyrsta tímabilið með Selfossi þar sem að hann sleit hásin í lok febrúar 2021. Á síðasta tímabili skoraði Guðmundur svo 55 mörk í 17 deildarleikjum og átti síðan stóran þátt í að koma Selfossi í undanúrslit Olís-deildarinnar með því að slá út FH.
Í vetur er Guðmundur Hólmar, sem er lykilmaður í vörn og sókn hjá Selfossi, svo næstmarkahæstur hjá liðinu með 66 mörk í 14 leikjum, og með næsthæstu heildareinkunn liðsins hjá HB Statz eða 7. Hann bætir væntanlega við mörkum í Vestmannaeyjum í kvöld þegar Selfyssingar mæta ÍBV.
Hjá Haukum spilar góður vinur og fyrrverandi liðsfélagi Guðmundar hjá Val og Akureyri, Geir Guðmundsson. Guðmundur, sem er þrítugur og hefur leikið 25 A-landsleiki, hefur einnig leikið með Cesson Rennes í Frakklandi og West Wien í Austurríki.