Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu sem einblínir á kjaradeilu Eflingar við Samtök atvinnulífsins. Rúmlega fjörutíu prósent landsmanna treysta samtökunum lítið eða illa. Mest traust er borið til embættis ríkissáttasemjara.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu dagana 8. til 13. febrúar og voru svarendur 1080 talsins.
Þátttakendur voru spurðir tveggja spurninga varðandi Eflingu, Samtök atvinnulífsins og embætti ríkissáttasemjara og svo skoðað í samhengi við menntun, tekjur og pólitískar skoðanir. Spurningarnar voru eftirfarandi:
1. Finnst þér fulltrúar Eflingar/Samtaka atvinnulífsins/ríkissáttasemjara hafa staðið sig vel eða illa í yfirstandandi kjaradeilu?
2. Treystir þú fulltrúum Eflingar/Samtaka atvinnulífsins/embætti ríkissáttasemjara mikið, lítið eða ekkert?
Samantekt á niðurstöðunum má sjá á myndinni hér að neðan. Litlu munar á Eflingu og Samtökum atvinnulífsins en í kringum fjórðungur þjóðarinnar telur fulltrúa Eflingar og SA hafa staðið sig vel. Tæplega fjörutíu prósent telja sáttasemjara hafa staðið sig vel.
Töluvert fleiri landsmenn telja hins vegar fulltrúa Eflingar hafa staðið sig illa eða um helmingur. Í kringum þrjátíu prósent landsmanna telja SA og sáttasemjara hafa staðið sig illa.
Varðandi traust til aðilanna þriggja nýtur sáttasemjari mest trausts eða um fjörutíu prósent landsmanna sem treysta sáttasemjara mikið. Um fimmtingur þjóðarinn treystir Eflingu og SA mikið.
Hægt er að kynna sér niðurstöðurnar nánar í skjalinu að neðan.